Gerum ráð fyrir því að hér væri ekkert Ríkisútvarp. Gerum jafnvel ráð fyrir því að ekkert fyllti upp í það rúm sem RÚV tekur á öldum ljósvakans í dag. Gerum ráð fyrir að þeir milljarðar sem RÚV hefur í auglýsinga- og áskriftartekjur skiluðu sér í engu í auknum tekjum og betri dagskrá annarra stöðva. Ætli einhver legði það til að stofnað yrði margmilljarða Ríkisútvarp í risavaxinni byggingu með 350 starfsmenn, sett yrðu lög sem meinuðu mönnum að horfa á aðrar sjónvarpsrásir án þess að greiða afnotagjöld til ríkisstofnunarinnar og stofnunin gerði út menn sem gægðust á glugga hjá fólki í leit að ólöglegum viðtækjum? Líklega ekki. Jafnvel er óvíst um að vinstrigrænir hefðu kjark til að leggja slíkt til þótt þá myndi langa. Í versta falli kæmi fram hugmynd um að stofna dagskrárgerðarsjóð til að styrkja gerð „menningarlegs“ efnis fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Rétt eins og stofnaður var Kvikmyndasjóður ríkisins en ekki Kvikmyndaver ríkisins fyrir nokkrum áratugum og rétt eins og rithöfundar fá styrki til skrifa en eru ekki ráðnir sem starfsmenn á Skáldsöguritunarstofnun ríkisins eða Ljóðagerð ríkisins.
Ríkisrekstri fylgir skattheimta. Skattheimtu þarf að réttlæta enda er um eignaupptöku að ræða. Því miður virðist gilda sú regla að ríkisrekstur sem einu sinni fer ef stað þarfnist ekki frekari réttlætingar. Ríkisútvarpið er ágætt dæmi um það.