Föstudagur 23. febrúar 2001

54. tbl. 5. árg.

„Hver eru launin?“ spurði Jón Ársæll Þórðarson góðlátlega þegar hann talaði við Ásthildi Helgadóttur knattspyrnumann á Stöð 2 í gærkvöldi, en Ásthildur hefur nýlega verið ráðin til þess að leika fótbolta við aðrar konur í Bandaríkjunum. Og eins og við var að búast þá vildi Ásthildur ekki gefa upp kaup og kjör. Engin ástæða er til að áfellast hana fyrir það, en hins vegar má nefna eitt í sambandi við þessa litlu spurningu. Fjölmiðlamenn eru sífellt að tala um laun annars fólk og láta jafnvel stundum eins og einhver eigi „rétt“ á að vita nokkuð um launakjör annars fólks. Sumir, eins og þeir sem starfa hjá Morgunblaðinu, DV, Stöð 2 og einkum Frjálsri verzlun, birta meira að segja „upplýsingar“ sem eru byggðar á ónákvæmum áætlunum um tekjur annars fólks.

Hvernig væri nú ef þessir fréttamenn tækju sig nú saman um það að fjalla ýtarlega um eigin launakjör? Ætti þeim að reynast auðvelt að greina þar rétt og nákvæmlega frá enda gætu þeir þá stuðst við launaseðla en þurfa ekki að reyna að reikna upp úr áætlunum skattyfirvalda. Fréttamennirnir eru sjálfir flestir þekktari persónur en það fólk sem þeir fjalla um af mestri ákefð og má því ætla að margir séu sérstaklega forvitnir um þeirra kjör. Ef nokkur alvara er á bak við orð þeirra um að „almenningur eigi rétt á upplýsingum“ um mál af þessu tagi, þá ættu fréttamenn af þessari sort að tryggja að þeirra eigin einkamál liggi ætíð fyrir hunda og manna fótum.

Á Íslenska lögfræðivefnun var í gær sagt frá dómi sem féll í gær í héraðsdómi Reykjaness. Þar voru hjón sýknuð af kröfu Ríkisútvarpsins um greiðslu afnotagjalda til Ríkisútvarpsins. Það virðist hafa verið maðurinn G. Pétur Matthíasson, þáverandi innheimtustjóri Ríkisútvarpsins, sem lét stefna hjónunum án þess að hafa nokkuð fyrir sér um það að þau ættu viðtæki. Engin gögn komu fram um að þau hefðu keypt slíkt tæki eða eignast á annan hátt en engu að síður lét  maðurinn G. Pétur Matthíasson stefna þeim fyrir dóm. Maðurinn G. Pétur greiðir ekki afnotagjöldin sjálfur þótt hann eigi bæði útvarps- og sjónvarpstæki. Hann gefur heldur ekki upp til skatts þau hlunnindi sem felast í ókeypis áskrift.

Innheimtudeild Ríkisútvarpsins virðist raunar hafa ofsótt fólkið í áratug. Útsendarar Ríkisútvarpsins fóru ítrekað á heimili fólksins sem hafði þráfaldlega neitað því að eiga viðtæki. Staðan árið 1994, eftir þriggja ára umsátur um fólkið, var því sú að stofnunin hafði engin gögn í höndunum um að fólkið ætti viðtæki og fólkið neitaði því einnig. Niðurstaða Ríkisútvarpsins var því auðvitað sú að senda fólkinu rukkun!