Fimmtudagur 22. febrúar 2001

53. tbl. 5. árg.

Nú hefur Hagdeild Alþýðusambands Íslands komist að þeirri niðurstöðu og sent frá sér minnisblað til miðstjórnar ASÍ af því tilefni að þétting byggðar í Reykjavík sé hagkvæm fyrir almenning. Þessi hagkvæmni verður til á afar nýstárlegan hátt. Hagdeildin hefur upplýst og sagt frá því á minnisblaði til miðstjórnar að bílar séu dýrir fyrir hinn almenna mann. Þess vegna sé rétt að þétta byggð og efla almenningssamgöngur svo menn þurfi ekki að eiga bíl. „Sá hluti þjóðarframleiðslunnar sem fer til að reka bílaflota höfuðborgarsvæðisins á sívaxandi gatnakerfi nýtist ekki til annars,“ segir í minnisblaði Hagdeildar ASÍ. Vafalaust hefur það hjálpað deildinni að komast að þessari niðurstöðu að Ari Skúlason fráfarandi framkvæmdastjóri fær 6 mánaða biðlaun frá ASÍ. Þessi laun nýtast ekki til annars. Þá mun það oft hafa gerst að fé sem fór í ferðakostnað Ara Skúlasonar, þegar hann sem framkvæmdastjóri ASÍ sótti Ísland heim frá Brussel, nýttist bara alls ekki annars staðar. Þó mun Ari ekki hafa látið samtökin greiða gistikostnað á meðan heimsókn hans hér á landi stóð. Hagdeildin hefur því ýmis raunveruleg dæmi um það hvernig fé sem eytt er á einum stað nýtist ekki til annars.

En hvers vegna kafaði hagdeildin ekki ögn dýpra og kannaði ástæður þess að bílar og rekstur þeirra er svo dýr? Skattar eru um helmingur bílverðs og 70% eldsneytisverðs. Ef hagdeildin skoðaði málið ofan í kjölinn kæmi jafnvel í ljós hverjar ástæður eru fyrir svo háum sköttum. Þá kæmi ef til vill á daginn að ýmis samtök – sem launafólk er neytt til aðildar að – hafa gjarna lagt til aukin útgjöld hins opinbera og hærri skatta á hinn almenna mann en hafa aldrei hvatt til aðhalds og sparnaðar. Eitt ráð sem líklegra er en þétting byggðar til að bæta kjör hins almenna launamanns er að fella niður eða að minnsta kosti lækka skyldugreiðslur hans til ASÍ. Framkvæmdastjórar sambandsins yrðu að vísu að ferðast heldur sjaldnar til Íslands yrði skyldugreiðslan lækkuð, en á móti kemur að þeir gætu þá dvalið lengur óslitið í Brussel og unnið þar að bráðum hagsmunamálum skyldugreiðenda.