Í síðustu viku efndu borgaryfirvöld í Reykjavík og bæjarstjórn Mosfellssveitar til nýstárlegrar keppni sín í millum. Leikreglurnar voru með þeim hætti, að sá taldist sigurvegari sem náði að taka undarlegustu ákvörðun vikunnar. Áskilið var að ákvörðunin mætti ekki hafa neina sérstaka raunhæfa þýðingu en hana yrði að kynna hátíðlega með mikilli viðhöfn og bæri öllum hlutaðeigandi að láta eins og mikil tíðindi væru á ferð. Borgaryfirvöld byrjuðu vel og eftir að þau náðu að ákveða að í mars 2001 skyldu borgarbúar greiða atkvæði um það hvað þeir myndu vilja í skipulagsmálum á árinu 2016 þá leit út fyrir að Ingibjörg Sólrún og félagar myndu fara með sigur af hólmi. En dag skal að kveldi lofa og þau í Mosfellssveitinni höfðu ekki sagt sitt síðasta orð.
Á endasprettinum gáfu bæjaryfirvöld í Mosfellssveit nefnilega út sérstaka yfirlýsingu sem líklega verður að teljast jafnvel enn undarlegri en væntanleg flugvallarkosning í Reykjavík. Og til að enginn þurfi að velkjast í vafa um það við hvaða yfirlýsingu er átt, þá er Vefþjóðviljanum ánægja að því að láta þess getið hér að bæjarstjórn Mosfellssveitar hefur hátíðlega lýst því yfir að bærinn hafi ekki yfir kjarnorkuvopnum að ráða. Í tilkynningu frá bæjaryfirvöldum segir reyndar aðeins að „bærinn“ sé „kjarnorkuvopnalaust svæði“, en því miður kemur ekki fram í tilkynningunni hvort eingöngu sé átt við að sveitarfélagið sem slíkt sé kjarnorkuvopnalaust eða hvort einnig hafi verið gengið úr skugga um það að einstakir íbúar búi ekki yfir kjarnorkuvopnum á heimili sínu. Ef yfirlýsing bæjaryfirvalda er til dæmis eingöngu byggð á lauslegri athugun á áhaldahúsinu þá rýrir það vitaskuld gildi hennar töluvert og þar til tekin verða af öll tvímæli um þetta verður líklega að leggja þann takmarkaða skilning í yfirlýsinguna að eingöngu sé átt við vopnabúr bæjarins en hugsanleg vopn á einkaheimilum séu undanskilin.
Nú kann að vera að ýmsum létti við þær fréttir að bæjarstjórn Mosfellssveitar sé ekki búin kjarnorkuvopnum. Á móti kemur hins vegar að þessi sérstaka yfirlýsing vekur aðrar spurningar. Sá sem allt í einu sér sig knúinn til að fullyrða að hann hafi ekki vopn af þessu tagi, – er ekki líklegt að hann hafi þá einhver allt önnur vopn og kannski litlu betri? Býr Mosfellssveit kannski yfir sýklavopnum, eldflaugum eða skriðdrekum? „Útúrsnúningar útúrsnúningar“ kann einhver að hrópa, jú jú, en hvað á fólk að halda þegar opinber sveitarstjórn – sem aldrei hefur verið sérstaklega grunuð um óvenjulega mikinn vopnaburð – sendir skyndilega frá sér yfirlýsingar sem þessa?
Í frétt Morgunblaðsins af þessu undarlega máli kemur fram að fyrir nokkru barst bæjaryfirvöldum í Mosfellssveit bréf frá félagi nokkru sem nefnir sig „Samtök herstöðvaandstæðinga“ og berst fyrir því að Ísland verði varnarlaust. Í bréfinu hafi samtökin óskað eftir því að bæjaryfirvöld skrifuðu undir sérstaka yfirlýsingu um kjarnorkuvopnaleysi en að sögn Jóhanns Sigurjónssonar bæjarstjóra þá hefðu bæjaryfirvöld ekki viljað skrifa undir hana, en ákveðið hins vegar að gefa út sína eigin „sjálfstæðu yfirlýsingu“. Þetta mál er sem sagt allt hið furðulegasta og í ljósi hinnar sérstæðu yfirlýsingar bæjaryfirvalda þá væri freistandi, ef einhver nennti, að fara nú að senda þeim bréf og biðja þau um að afneita sýklavopnum, tundurskeytum og dúmdúm-kúlum. Já og hvernig er það: Eru, eða eru ekki jarðsprengjubelti í Mosfellssveit? Er hægt að fá svar við því, takk fyrir?