Það er tæpast þorandi að segja frá því sem verstu forsjárhyggjupésum heimsins dettur í hug. Hver veit nema einhver hér á landi telji hugmyndina góða og geri hana að sinni. Og reynslan sýnir að vitlausar hugmyndir sem bornar eru fram í þeim tilgangi að takmarka frelsi fólks (þó það sé vitaskuld ekki yfirlýstur tilgangur þeirra) eiga það til að verða að frumvörpum og jafnvel lögum. Nýtt tóbaksfrumvarp heilbrigðisráðherra staðfestir þetta. Vefþjóðviljinn hefur sagt skoðun sína á því frumvarpi, en það gengur í stuttu máli út á að banna mönnum að heimila reykingar í eigin húsnæði. Breyti maður heimili sínu í kaffihús, taki sem sagt upp á því að selja gestum kaffi í stað þess að gefa þeim það, þá verður honum samkvæmt þessum lögum óheimilt að reykja þar. Hann má sem sagt ekki reykja í eigin húsnæði og gestir hans mega ekki heldur reykja þar. Fyrir nokkru hefði líklega enginn trúað að þvílíkt frumvarp yrði lagt fyrir Alþingi. Þeir sem létu hvað hæst yfir öryrkjafrumvarpinu mættu að ósekju eyða nokkrum orðum á þetta frumvarp, en munu auðvitað ekki gera það enda vilja þeir ekki bregðast röngum málstað.
En þá að vitlausu hugmyndinni, sem varla er þorandi að nefna. Þessi hugmynd gengur jafnvel enn lengra en reykingarbannið – en þó má um það deila hvort gengur lengra – því hún snýst um að banna fólki að sofa í öðrum herbergjum húsa en svefnherbergjum. Já, fólki er samkvæmt þessari hugmynd meinað að láta líða úr sér í svefnsófum, að ekki sé talað um að dotta í baði. Þessi hugmynd er auðvitað of vitlaus til að hafa ekki einhvers staðar hlotið stuðning löggjafa, því nú er unnið að því að banna íbúum í sýslu nokkurri í Bandaríkjunum að sofa í öðrum herbergjum en svefnherbergjum. „Rökin“ eru þau að sumir íbúarnir séu farnir að leyfa fjölda fólks að sofa inni í stofu hjá sér og jafnvel eldhúsum og þetta telja auðvitað sumir aðrir að sé alveg ótækt. Sem er hárrétt, og því leggur Vefþjóðviljinn til að um leið og tóbaksvarnarfrumvarpið verði afgreitt fari í gegnum Alþingi ámóta réttmæt lög, sem gætu orðast svo:
Lög um svefnherbergi í einkahúsnæði
1.gr.
Svefnherbergi merkir í lögum þessum herbergi sem eingöngu er notað til að sofa í.
2.gr.
Ekki er heimilt að sofa í öðrum herbergjum en svefnherbergjum.
3gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi – og þó fyrr hefði verið.