Fimmtudagur 11. janúar 2001

11. tbl. 5. árg.

Undanfarna daga hefur sú skoðun verið breidd út, að það sé hið versta „mannréttindabrot“ að félagslegar bætur til manna séu að einhverju leyti miðaðar við þær tekjur sem þeir og maki þeirra kunna að hafa af störfum sínum. Hefur svokallaðri „tekjutengingu“ víða verið valin slík hrakyrði að ætla mætti að hún væri eitt af þeim meðulum sem Li Peng beitti kínverska námsmenn eða sem Osama Bin Laden notaði til að knýja Bandaríkjastjórn til uppgjafar. En þrátt fyrir stóryrðin undanfarna daga má geta þess hér, að ýmislegt annað má um málið segja.

Ef til vill freistast einhverjir til að draga þá einu ályktun af nýlegum dómi hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins að ríkisstjórnin sé vond við þá sem minna mega sín. En dómurinn leiðir þó einkum vanda velferðarkerfisins í ljós. Velferðarkerfi ríkisins er ósveigjanlegt enda þurfa sömu reglur að gilda um alla og ekki er hægt að taka á hverri neyð fyrir sig. Með tekjutengingu bóta er ætlunin að beina aðstoð til þeirra sem helst þurfa á henni að halda.  Með þeirri reglu að aðstoð minnki eftir því sem tekjur hækka er reynt að takmarka kostnað við velferðarkerfið og  því megi gera betur en ella við þá sem raunverulega þurfa á því að halda.Tekjutenging kemur ekki síst til af því að margir líta svo á að félagsleg aðstoð eigi einkum að renna til þeirra sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda, en síður til þeirra sem ekki þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Þeir, sem vilja gjarna að hið opinbera létti undir með þeim sem ekki eiga völ á öðrum tekjum eða aðstoð, vilja ekki endilega að slíkri aðstoð sé einnig beint til hinna sem öðru máli gegnir um. Tenging bóta við tekjur maka bótaþegans, helgast ekki síst af því, að menn gera ráð fyrir að fólk í hjúskap og sambúð hjálpist að og sé annar makinn á góðum launum þá séu almennt minni líkur á því að veita þurfi félagslega aðstoð inn á heimilið.

Þeir, sem líta svo á að félagsleg aðstoð eigi einkum að renna til þeirra sem þurfa hennar með en síður til hinna, munu vart vera af heilum hug á því tekjutenging félagslegra bóta sé stórkostlegt mannréttindabrot. Margir heitustu stuðningsmanna umfangsmikils velferðarkerfis á Íslandi hafa enda mjög litið um Norðurlönd eftir fyrirmyndum í félagsmálum og vita að þar eru bætur tekjutengdar án þess að menn hafi gerst stórorðir og ofsafengnir um „mannréttindabrot“ og „þjófnað“. Hitt er svo annað mál, að tekjutenging hefur einnig sína galla. Frægt er hvernig fólk breytir hjúskaparstöðu sinni til að til að þóknast dyntum kerfsins – þó þau dæmi séu líklega fremur umtöluð en mörg. Tekjutengingin dregur einnig úr vilja fólks til að afla sér tekna upp á eigin spýtur. Viðbótartekjur verða lítils virði ef bæturnar minnka jafnharðan og teknanna er aflað.

Velferðarkerfið verður fyrir atlögum sterkari hagsmunahópa en öryrkja og aldraðra. Með dyggri samvinnu við nokkra ráðamenn ríkisfjármálanna fékk „kynlegi jafnréttisiðnaðurinn“ til dæmis áður óþekktar fjárhæðir út úr velferðarkerfinu þegar ný lög um fæðingarorlof voru samþykkt í fyrra. Árlega verða nokkrir milljaðar króna notaðir til að greiða fullfrísku fólki hæstu félagslegu bætur í sögu lýðveldsins. Verkefni kerfisins eru því fleiri og víðtækari en ástæða er til og kostnaður fer úr böndunum. Hvort sem menn trúa því eður ei þurfa að koma inn tekjur í ríkissjóð til að standa undir þessum kostnaði. Og jafn lygilegt og það kann að hljóma í allri umræðunni um „rétt“ manna til „ókeypis“ velferðarþjónustu þá þarf ríkissjóður að taka þessar tekjur af fólki og fyrirtækjum. Þessar tekjur verða því ekki notaðar annars staðar á meðan – hvorki til sköpunar nýrra atvinnutækifæra né til annarra góðverka.

Hinn mikli kostnaður við víðtækt velferðarkerfi ríkisins birtist nefnilega í háum sköttum og þar með afar litlu svigrúmi fyrir góðgerðarstarfsemi á vegum einkaaðila. Velferðarkerfi ríkisins hefur mjög torveldað hinum almenna manni að leggja sjálfur fé til líknarstarfsemi. Ætli menn myndu almennt styrkja styrktarfélag efnaðra foreldra af mestri rausn ef skattar væru lækkaðir um það sem fæðingarorlofið á að kosta? Ef til vill er kominn tími til að leita annarra leiða um aðstoð til þeirra sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda en láta hið opinbera um það.