Þriðjudagur 2. janúar 2001

2. tbl. 5. árg.

Millenium Dome í Lundúnum hefur orðið að því sem við mátti búast; engu. Fyrir þá sem ekki muna eftir þessari dýru byggingu breska ríkisins nægir að nefna að um áramótin 1999/2000 var opnuð risastór hvelfing í Lundúnum undir nafninu Þúsaldarhvelfingin. Tony Blair, leiðtogi vinstri manna á Vesturlöndum, sagði þetta verkefni verða tákn um „anda sjálfstrausts og ævintýra í Bretlandi.“ Ævintýri Blairs er á enda og sjálfstraustið væri það einnig ef hann bæri virðingu fyrir skattgreiðendum og þeim tæpu 10.000.000.000 króna sem þeir voru neyddir til að láta af hendi svo byggingin mætti rísa. Byggingin er nú aðeins tákn um eyðslusemi stórhuga stjórnmálamanna og sóun á almannafé.

En hvaða máli skiptir byggingin Íslendinga? Jú, ef menn vilja læra af mistökum annarra ekki síður en eigin mistökum er ágætt að líta til þessarar byggingar og þeirra óraunhæfu áætlana sem hinir stórhuga menn notuðu sem rökstuðning fyrir byggingunni. Til að byggingin stæði undir sér þurfti stöðugan húsfylli og þar með látlausar sýningar sem fáir vildu missa af. Þetta var vitaskuld útilokað og áætlanir á borð við þessa hefðu aldrei verið teknar alvarlega nema vegna þess að þarna voru stjórnmálamenn að byggja fyrir annarra manna fé. Þegar Nomura bankanum japanska bauðst að halda rekstrinum áfram í september síðast liðnum hafnaði hann því eftir að hafa skoðað dæmið. Þar á bæ njóta stjórnendur sem tapa stórum fjárhæðum minni skilnings en þeir sem fela sig í Downingstræti 10.