Mánudagur 1. janúar 2001

1. tbl. 5. árg.

Loksins er 20. öldin að baki, en dauðateygjur hennar hafa verið nokkru lengri en venja er, því sumir ákváðu að byrja að kreista úr henni líftóruna ári of snemma. Þetta skiptir auðvitað litlu og helst ástæða til að líta á slík fangbrögð sem skemmtilegt krydd í tilveruna. Og það er líka bara skemmtilega öfugsnúið að þessir sömu menn skuli þó ná að halda áramótin í lok síðasta dags hvers árs en ekki í lok þess næst síðasta – og þó, það væri nú svo sem ekki ástæða til að gráta það að fá tvöfalt gamlárskvöld á hverju ári. Eða að vinnuvikunni lyki bæði á fimmtudögum og föstudögum. Sennilega væri bara allt mun gleðilegra ef þessi gerð af talnaspeki fengi aukið svigrúm í þjóðfélaginu. Svo mætti þar að auki vinna á móti skattpíningu síðasta árs með því að halda tvisvar upp á skattadaginn þetta árið.

Við hver áramót fá leiðtogar stjórnmálaflokkanna tækifæri til að viðra sjónarmið sín í fjölmiðlum. Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði ávarp í Morgunblaðið og flutti annað í útvarpi og sjónvarpi. Í Morgunblaðinu segir Davíð meðal annars nokkur orð til varnar því að skattfé hafi verið notað til hátíðarhalda vegna 1000 ára kristnitökuafmælis (skrýtið að enginn skyldi vilja halda afmælið ári of snemma) og telur að gagnrýnt hefði verið ef „ríki og kirkja hefðu ekki skapað skilyrði fyrir þá sem vildu minnast atburðanna á þeim stað sem til þess var einn fallinn“. Undir það má taka að sjálfsagt var að standa með engum hætti í vegi fyrir hátíðarhöldunum. Þau voru eðlileg. Þau hefðu hins vegar alfarið átt að vera í höndum kirkjunnar og safnaða hennar um allt land. Þetta hefði verið eðlileg tillitssemi við skattgreiðendur og auk þess má leiða líkum að því að þátttaka hefði verið betri ef sóknarbörn um allt land hefðu fundið til ábyrgðar af hátíðinni í stað þess að hún væri að öllu leyti skipulögð að ofan. Íslenska kirkjan mætti líka hafa þetta í huga hvað varðar aðra þætti í starfi hennar. Það á þó alfarið að vera hennar mál hvernig hún heldur á málum og þar með fer best á því að skattgreiðendur séu ekki gerðir að þátttakendum í atburðum á hennar vegum.

Líklegt er reyndar að viðhorfið sé almennt að breytast í þessa átt og í útvarps- og sjónvarpsávarpi Davíðs benti hann réttilega á að forystumenn stjórnmálanna hafi á síðustu árum aldarinnar verið að draga úr valdi sínu öfugt við það sem gerðist þegar sósíalisminn og þjóðernissósíalisminn óðu uppi á fyrri hluta aldarinnar. Það er ekki hægt annað en fagna því þegar forsætisráðherra talar um að „valdatilfærsla frá foringjum til fjöldans“ sé góðs viti og minnir á að mestu voðaverk liðinnar aldar hafi verið framin af smámennum sem lyft hafi verið upp á háan stall. Það er einmitt valdatilfærsla frá stjórnmálunum til markaðarins sem er mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna nú og hefur verið um langt skeið. Og þegar því er haldið fram að minna sé um harða stjórnmálabaráttu nú en áður fyrr er það til marks um að þróunin sé í rétta átt. Sú aukna umræða sem orðið hefur um viðskipti er til marks um hið sama, því hún bendir til að fólk hafi meiri tíma og ráð til að skipuleggja líf sitt og eigin framtíð en áður. Þjóðfélagsrýnar og sjálfskipaðir gagnrýnendur – eins og Vef-Þjóðviljinn mundu sumir skjóta inn í – harma þetta iðulega og virðist þykja að áhrif af rýni þeirra minnki meira en góðu hófi gegnir. Þeir ættu þó að fagna þessari þróun og því að geta varið meiri tíma í uppbyggilegra starf. Líklega eru þeir þó svo langt leiddir að engu skiptir hvaða breytingar verða, þeir munu alltaf finna sér umfjöllunarefni þó þau minnki vonandi smám saman að vöxtum og færri og færri sjái ástæðu til að leggja við hlustir. Fullur árangur næðist ef slíkum rýnum, líkt og stjórnmálamönnunum, hefði tekist að gera sig þarflausa.

Það gladdi þá sem ekki vilja lenda meira en orðið er í klóm skriffinna í Brüssel að Davíð Oddsson skuli standa vörð um stöðu Íslands utan Evrópusambandsins og benda í Morgunblaðinu á að ekkert hafi gerst sem ýti á aðildarumsókn okkar. EES-samningurinn standi undir þeim væntingum sem til hans hafi verið gerðar í upphafi og engin ástæða sé til að ætla að svo muni ekki verða um ókomna tíð. Þeir sem vilji ganga í Evrópusambandið verði að rökstyðja hvað áynnist með aðild og hverju þeir telja til fórnandi. Enginn slíkur rökstuðningur hefur komið fram en í stað þess ræða stuðningsmenn um að þeir vilji umræður um að umræður verði um umræður um að farið verði yfir kosti og galla hugsanlegrar aðildarumsóknar. Þeir hætta sér þó ekki út í þær umræður sjálfir.

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, er ekki aðeins glaður í bragði þegar honum detta í hug nýjar borgir erlendis þar sem hola má niður íslenskum sendiráðum. Hann kippist líka við af gleði þegar hann fær færi á að tjá skoðanir sínar á þjóðmálum. Þetta kom þó ekki endilega fram í síðasta tölublaði Morgunblaðsins á árinu þegar Halldór svaraði aldamótaspurningum sem blaðið beindi til formanna minni stjórnmálaflokka landsins. Í svörum formanns Framsóknarflokksins var því miður ekki að finna allan þann kraft sem alla jafna einkennir flokkinn og formann hans og þá ákveðnu sýn sem yfirleitt einkennir málflutninginn. Þó mátti sjá glitta í hinn sanna framsóknarmann í sumum svörunum og veita þau lesendum Morgunblaðsins vafalítið ómælda gleði. Það sem helst má lesa út úr svörum Halldórs er að Íslendingar verði að sækja fram, en varlega þó. Íslendingar séu ekki að tapa tungunni (og sjálfsagt ekki tungunum heldur) og ef þeir gæti sín á hinu óhefta frelsi þá muni þeir geta forðast stjórnleysi. Og þá mun Halldór væntanlega vera til reiðu búinn að stjórna þeim enn um sinn, hvort sem er í smáu eða stóru.

Um svör formanns þess sem í Morgunblaðinu er kallað Frjálslyndi flokkurinn þarf ekki að hafa mörg orð. Sá flokkur er svo frjálslyndur að formanninum er hugstæðast að „koma böndum á óarga markaðsöfl“ og „hafa stjórn á framhaldi tæknibyltingarinnar“. Formaðurinn, Sverrir Hermannsson, getur verið ánægður með að hafa sömu áhyggjur og formaður Framsóknarflokksins, enda Sverrir kunnur áhugamaður um velgengni þess manns og getur ekki hugsað sér að orði sé á hann hallað.

Steingrímur J. Sigfússon leiðir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og orðið sem hann leggur alla áherslu á er jöfnuður. Til að ná honum boðar hann meðal annars breytingar á skattkerfi. Engar útfærslur að vísu, en ljóst er að Steingrímur er haldinn sömu firru og aðrir af sama sauðahúsi, þ.e. að með aukinni stighækkun tekjuskatts megi jafna kjör fólks án þess að það hafi nokkrar slæmar afleiðingar aðrar. Hann gleymir því að það er ekki nóg að skipta þjóðarkökunni, heldur þarf að baka hana líka. En hann er svo sem aðallega með hugann við að baka vandræði, enda utan stjórnar og fullkomlega óábyrgur í öllum málflutningi. Það sést til að mynda á því að eitt af því sem hann nefnir er að íslenskt samfélag þurfi að þróast þannig að vel menntað fólk vilji snúa heim að námi loknu. Er líklegt að vel menntað fólk muni sækja í skattpíningu Steingríms?
Steingrímur tekur af skarið og segir hug sinn allan undanbragðalaust í einu máli. Hann vill láta „móta áætlun um hvernig sjálfbærri þróun í atvinnu- og samfélagsháttum verður komið hér á“. Þeim sem skildu þessa setningu er bent á að hringja tafarlaust í Steingrím og útskýra hana fyrir honum, því hann hefur ekki hugmynd um hvað þetta merkir.

„Mesta viðfangsefni þjóðarinnar erum við sjálf, einstaklingarnir, sem búum og störfum á Íslandi eða tengjumst því á einhvern hátt,“ segir Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar í upphafi svars síns. Slær hann með þessu heldur betur vopnin úr höndum þeirra sem héldu að hann hefði upp á lítið að bjóða annað en málgleðina.
Össur spáir því að vegna sigurfarar markaðshyggjunnar muni pólitísk átök í upphafi þessarar aldar „snúast meðal annars um hvort burðarásar velferðarkerfisins á borð við mennta- og heilbrigðiskerfið verði einkavæddir“. Jafnaðarmenn muni „að sjálfsögðu berjast gegn því af oddi og egg“. Ekki kemur fram hvar oddurinn og eggin eru sem berjast á af, en líklega eru þetta nýyrði yfir Alþingi, því Össur segist í framhaldinu telja að leiðin muni aftur liggja á vit stjórnmálanna. Hann óskar þess, ólíkt flestum mönnum, að snúið verði aftur og vegur stjórnmálanna aukinn á kostnað markaðarins. Þetta er þá hin nútímalega jafnaðarstefna; að hverfa til baka í pólitíska potið í stað þess að losa fólk undan áþján ríkisafskipta.