Áramótaútgáfa
Eins og áður á þessum árstíma hefur Vefþjóðviljinn tekið saman þau atriði líðandi árs sem síst skyldu gleymast og hverfa með öllu inn í aldanna skaut.
Erindisleysa ársins: Lögfræðingur á þrítugsaldri, Haraldur Örn Ólafsson, ákvað að freista gæfunnar á Norðurpólnum. Eftir þriggja mánaða stranga göngu komst hann á leiðarenda en þar var ekkert að hafa. Hann hringdi heim og bað um að vera sóttur hið snarasta. |
Sveit ársins: „Bakvarðasveitin“, sem á hverjum degi klæddi sig í flísfatnað með ísaumuðum fánum og hringdi í Harald Örn. Úr Glæsibæ. |
Stöðumat ársins: Ari Skúlason mat það svo að nú væri mikil stemmning fyrir sér.
Uppgötvun ársins: Í tæplega fjögurhundruð ár hafa Indverjar haldið að Taj Mahal væri grafhýsi. Fréttamenn Stöðvar 2 fóru á staðinn og sendu látlausar og ýtarlegar fregnir af þessu „musteri ástarinnar“.
Forsprakki ársins: Helgi Pétursson stóð fyrir „bíllausum degi“ í sumar. Þann dag fór hann sjálfur allra sinna ferða – á eigin bíl. |
Afturganga ársins: Ævisaga Steingríms Hermannssonar heldur áfram að koma út. Ætlar enginn að fara að gera eitthvað í þessu?
Trúnaðarmaður ársins: Gunnar Ingi Gunnarsson hefur lengi farið fyrir þeim sem tala hæst um „trúnaðarskyldur læknis“. Þannig að Valdimar Jóhannesson ákvað að trúa honum fyrir þætti sínum í útgáfu níðbæklings um Halldór Ásgrímsson. Það reyndist misráðið. |
Heppni ársins: Árni Johnsen varð fyrir því óhappi að stigi féll í höfuð honum. Hann meiddist hins vegar ekki, „vegna þess að stiginn kom á höfuðið“. Það var lán í óláni.
Harðastir á árinu: Minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur heldur fast við það sem honum hefur gefist vel: Situr miskunnarlaust hjá í öllum helstu málum. Í næstu borgarstjórnarkosningum mun hann hvetja borgarbúa til að skila auðu.
Nef ársins: Geir H. Haarde gaf landsfundi Sjálfstæðisflokksins það lengsta nef sem sást á árinu. |
Hnýsni ársins: Nokkrir venjulegir almennir borgarar fóru til skattstjórans til að athuga hvaða laun væru áætluð á nágrannana. En komust ekki að þar sem forvitnir Heimdellingar lágu yfir skránum. Enda brutust út slagsmál.
Strandhögg ársins: Úrvalssveit íslenskra knattspyrnumanna fór til Tékklands til að taka heimamenn í karphúsið. Talað var um að „sterk vörn“ yrði beittasta vopnið í baráttunni. |
Ranghugmynd ársins: Eigendur Steindórsprents héldu að þeir byggju í frjálsu landi og ákváðu að selja Odda hf. prentsmiðjuna sína. Samkeppnisráð lækkaði í þeim rostann.
Leiksýning ársins: Viðtalsþáttur Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Ásdísar Höllu Bragadóttur.
Fullyrðing ársins: Á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins er því ennþá blákalt haldið fram að fæðingarorlofslögin séu „í samræmi við ályktanir og yfirlýsingar flokksins“.
Stjórnkænska ársins: Valgerður Sverrisdóttir ákvað að láta samkeppnisráð ráða því hvort menn mættu sameina Landsbankann og Búnaðarbankann. Líklega hafa allir Íslendingar aðrir en hún vitað að samkeppnisráð er á móti allri hugsanlegri hagræðingu í viðskiptalífinu.
Fögnuður ársins: DV birti skoðanakönnun þar sem kom fram að rúmlega 80 % kjósenda ætluðu ekki að kjósa Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Ögmundur Jónasson sagðist fagna þessu mjög og væri þetta til marks um að málflutningur flokksins væri „metinn að verðleikum“.
Afstaða ársins: Það vafðist ekki fyrir Morgunblaðinu að taka afstöðu í bandarísku forsetakosningunum. Sama blað hefur þó enn ekki tekið afstöðu til síðustu forsetakosninga á Íslandi.
Útgerðarmenn ársins: Minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur lagði til að Reykjavíkurborg keypti nokkurra ára gamalt „víkingaskip“ og hæfi rekstur þess. |
Aðhaldsemi ársins: Stöð 2 hafði skyndilega miklar áhyggjur af því hvað það kynni að kosta skattgreiðendur ef Ástþór Magnússon byði sig fram til forseta. Aldrei var minnst á hvað framboð Ólafs Ragnars Grímssonar myndi kosta.
Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.
Ósvífni ársins: Árni Kolbeinsson leyfði sér að sækja um embætti hæstaréttardómara þrátt fyrir að vera alls ekki kona.
Hæfastar á árinu: Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólöf Pétursdóttir og Sigríður Ingvarsdóttir reyndust hæfastar til embættis hæstaréttardómara þar sem þær munu vera konur. Því miður reyndist erfitt að gera upp á milli þeirra þar sem þær eru jafn miklar konur og þar með jafn hæfar.
Sárabót ársins: Skömmu fyrir áramót bárust þó fréttir af því að senn losnaði annað sæti í Hæstarétti og þá verður kvenréttindakonum væntanlega að þeirri ósk sinni að „bara einhver kona“ verði skipuð. Eða hvað? Sá sem heldur að Sólveig Pétursdóttir standist þrýsting, rétti upp hönd.
Mannréttindi ársins: Samkvæmt dómi Hrafns Bragasonar og Haraldar Henryssonar má hver sem er skrifa næstum hvað sem er um Kjartan Gunnarsson. |
Fjöldahreyfing ársins: Náttúruverndarsinnar á Austurlandi voru gersigraðir í atkvæðagreiðslu. Á aðalfundi Náttúruverndarsamtaka Austurlands.
Sambandsleysi ársins: Eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að óheimilt væri að breyta kosningareglum eftirá, hringdi Al Gore í sína menn og sagði þeim að hætta baráttunni. Hann náði hins vegar ekki í Karl Blöndal svo Karl hélt áfram. |
Jaxlar ársins: Karlanefnd jafnréttisráðs. Ólafur Þ. Stephensen og Ingólfur V. Gíslason eru karlmenn nýrra tíma og fara með kynbræður sína heim í fæðingarorlof. Hvort sem þeim líkar það betur eða verr. |
Uppsagnir ársins: Allir starfsmenn Byggðastofnunar nema einn hættu störfum þegar ákveðið var að flytja stofnunina… út á land.
Ljósmyndafyrirsæta ársins: Kolbrún Halldórsdóttir.
Stríðsyfirlýsing ársins: Eftir að Samfylkingin hafði ítrekað mælst með minna fylgi en Vinstrigrænir lýsti Össur Skarphéðinsson því yfir að Samfylkingin væri höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins og í raun sá eini sem skipti máli. Það er svona svipuð fullyrðing og ef venjulegur skákáhugamaður í Breiðholtinu lýsti því yfir að héðan í frá stæði baráttan milli sín og Kramniks.
Öryggistæki ársins: Stærðar jarðskjálfti reið yfir Suðurland, hús hrundu og símar urðu sambandslausir. Ríkissjónvarpið stóð vaktina og sendi beint út klukkustundum saman. Fyrst fótbolta. Svo kappakstur. Þetta vakti óánægju margra áhorfenda. |
Vísindi ársins: Leiðtogafræði.
Tilætlunarsemi ársins: Eftir að Alexander Ayobambeele Briggs hafði notið fæðis og húsaskjóls á kostnað íslenska ríkisins í níu mánuði þá leyfði hann sér að heimta greiðslu í ofanálag. Hæstiréttur tók það auðvitað ekki í mál – og má Briggs reyndar þakka fyrir að hafa ekki verið dæmdur til að greiða fyrir leigu á klefa.
Tepra ársins: Sverrir Stormsker gætir þess vandlega að segja aldrei neitt sem kynni að móðga nokkurn mann.
Lítillæti ársins: Ásgeir Sverrisson, einkaleyfishafi „Nútíma-viðhorfa“, er hógværðin uppmáluð í Viðhorfs-pistlum sínum í Morgunblaðinu, og hefur fullan hemil á fullyrðingagirninni.
Meinloka ársins: Allskyns fólk heldur í einlægni að samkeppnislög geri samkeppni frjálsari.
Doktor ársins: Vigdís Finnbogadóttir leikhúsfræðingur var gerð að heiðursdoktor við verkfræðideild Háskóla Íslands.
Vandi ársins: Það hlýtur að vera tvöþúsund-vandinn. Eftir áralangar neyðaráætlanir bilaði ekkert nema einn stöðumælir.
Löggjafi ársins: Hæstiréttur.
Keppni ársins: Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna efndu til harðvítugrar keppni um það hver gæti hneykslast mest á Li Peng.
Háð ársins: Með þeirri gömlu aðferð hrósa svo mjög að úr verði last en ekki lof, tættu Heimdellingar Ástu Möller sundur og saman í háði.
Ferðamaður ársins: Maður nokkur á leið frá Hollandi til Bandaríkjanna millilenti í Keflavík. Tollverðir sátu fyrir honum og fundu á honum fíkniefni. Hann var dæmdur í 9 ára fangelsi. Fyrir tilraun til að flytja varning frá Hollandi til Bandaríkjanna. |
Grís ársins: Það er nú augljóst.
Friðflytjendur ársins: Síðla ársins 2000 ákvað meirihluti auðlindanefndar að kanna hvort ekki gæti náðst almenn sátt um þjóðnýtingu og allsherjarsósíalisma á Íslandi.
Fréttahaukur ársins: Þór Jónsson stórfréttamaður er svo nútímalegur fréttamaður að hann spyr ekki einu sinni hvað klukkan sé, án þess að bæta því við að spurningin sé borin fram með vísan til upplýsingalaga.
Útilokun ársins: Þann 20. nóvember síðastliðinn birti Morgunblaðið ekki eina einustu mynd af Sólveigu Pétursdóttur. Hvorki í lit né svarthvítu. Þetta var að vísu mánudagur en engu að síður var þetta ódrengilega gert. |
Stjórnarandstaða ársins: Minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur gerir það sem hann getur til að ná endurkjöri. Sem minnihluti.
Skattgreiðandi ársins: Forseti Íslands fékk loks þá ósk sína uppfyllta að fá að greiða skatta eins og annað fólk. Var það vel, enda Ólafur Ragnar Grímsson alþekktur áhugamaður um skattheimtu.
Skemmtiferð ársins: Viðskiptaráðuneytið bauð starfsmönnum ráðuneytisins í skemmtiferð. Til Grenivíkur. Svo skemmtilega vildi til að einmitt á sama tíma var Valgerður Sverrisdóttir að halda upp á fimmtugsafmæli sitt. Á Grenivík.
Heilagleiki ársins: Karl Sigurbjörnsson sér í gegnum skrumið, tómið, fásinnið, markleysið, hjómið, græðgina og innihaldsleysið í okkur hinum.
Sveitarstjórn ársins: Bæjarstjórn Hveragerðis ákvað í fullri alvöru að banna köttum að ganga um bæinn og að leyfi til kattahalds yrði aðeins hugsanlega veitt að uppfylltum ströngum skilyrðum svo sem að húsbóndi kattarins keypti tryggingu sem myndi bæta það tjón sem hljótast myndi af kettinum. Mun þar einkum vera átt við þau tilvik þar sem köttur kveikir í húsi eða stelur bíl.
Íþróttamaður ársins: Geir H. Haarde bætti Íslandsmetið í ríkisútgjöldum. Hann þakkaði árangurinn markvissum undirbúningi sínum og góðri samvinnu við hagsmunahópa.
Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum
velgengni og góðvildar
á komandi öld.