Nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum hafa orðið velflestum vinstrimönnum farvegur útrásar fyrir hneykslunargirni sína. Eitt lítið dæmi um þetta er nokkurskonar ritúal í þættinum Í vikulokin, sem sendur er út á laugardagsmorgnum frá ríkisútvarpinu. Frá því að kosningum lauk hafa gestir þáttarins, undir stjórn Þorfinns Ómarssonar þáttagerðarmanns, kyrjað skrípaleikssönginn hver í kapp við annan.
Fyrir kosningarnar kyrjuðu vinstrimenn hinsvegar annan söng. Sá söngur var á þá leið að kosningabaráttan í Bandaríkjunum væri ekki einasta kosningabarátta tveggja stjórnmálaafla heldur væri hún í raun barátta milli góðs og ills, guðs og kölska. Þannig var George Bush gjarnan lýst sem fávísu illmenni sem engu skeytti um umhverfið, lagði stund á svartagullsbrask og brennivínsdrykkju og stytti sér stundir við að stýra aftökum blökkumanna og vangefinna niðrí Texas. Á hinn bóginn var það svo Albert Gore, sem vökvaði jafnvel hin smæstu blómin í Edensgarði úr gnægtarbrunni þekkingar sinnar og visku og eftir að hafa hrakið Bush hinn eldri ofan úr Washington, gaf okkur dauðlegum barn sitt eingetið: internetið.
Í ljósi þessarar svarthvítu myndar, sem margir vinstrimenn og fjölmiðlar drógu upp af kosningabaráttunni, er fróðlegt að skoða bréf Ira Glasser, framkvæmdastjóra American Civil Liberties Union (ACLU) sem hann sendi félagsmönnum, skömmu fyrir kosningar. Í bréfinu sér Glasser sérstaka ástæðu til að skora á félagsmenn ACLU að sofna ekki á verðinum og bendir á að þrátt fyrir áróður um hið gagnstæða þá sé barátta félagsins engu bættari með Gore í Hvíta húsinu og tiltekur m.a. eftirfarandi dæmi:
· Kynþáttamismunun eða heildarhyggja (racial profiling) t.d. í eftirliti lögreglu þarfnist enn frekari andstöðu.
· Jafnrétti samkynhneigðra eigi ekki síður undir högg að sækja.
· Aðskilnaður ríkis og kirkju verði enn fjarlægari þar sem bæði Gore og Lieberman hafa lagt sérstaka áherslu á aukna þátttöku trúar í pólitískri stefnumótun.
· Dauðarefsing verði enn við lýði þar sem hún sé dyggilega studd af Gore.
· Gore styður áframhaldandi fíkniefnabann.
· Gore styður ritskoðun dægurlagatexta og kvikmynda.
ACLU verður seint sakað um að vera sérstök málpípa hægrimanna í bandarískum stjórnmálum en einsog af bréfi Glasser má sjá, þá verður það heldur ekki sakað um þátttöku í þeim skrípaleik vinstrimanna, sem í fyrirlitningu sinni á almenningi, telja að honum sé allt bjóðandi.