Því er haldið fram að laun kvenna og staða þeirra á vinnumarkaði sé verri þar sem þær eignist börn. Þess er krafist að hið opinbera „leiðrétti“ þetta með ýmsum aðgerðum. Hér var gripið til þess ráðs fyrir allnokkrum árum að greiða konum laun í fæðingarorlofi. Um áramótin verður svo einnig farið að greiða körlum slík laun og „réttur“ mæðra til launatékka frá hinu opinbera verður aukinn. Verður þessi breyting mesta varanlega aukning á útgjöldum hins opinbera í áratugi og þykir fara vel á því að fyrrverandi formaður SUS og núverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins standi fyrir þessu sem fjármálaráðherra. Með breytingunni verður einnig tekinn upp sá siður að tekjuhæsta fólkið fái hæstu velferðartékkana. Það studdu meðal annarra Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson og fleiri þingmenn sem klifrað hafa upp í þingsæti sín af bökum láglaunafólksins.
Í septemberhefti Ideas on Liberty andmælir Karen Palasek aðstoðarprófessor í hagfræði við Campbell University því að ríkið þurfi að grípa til aðgerða vegna þeirra sem „lenda“ í þeim hremmingum að verða foreldrar. Palasek segir: „Okkur er sagt að gleyma ekki hinum dulda kostnaði við barneignir. Það sé ekki nóg með að konur fái lægri laun en karlar heldur geta barneignir bætt gráu ofan á svart. Launamunur aukist með hverju barni enda fái barnlausar konur hærri laun en mæður og staða mæðra versni með hverju barni sem þær eignast.“ Og áfram segir hún: „Barneignir hafa vissulega dulinn kostnað í för með sér fyrir foreldra. Þessi kostnaður er betur þekktur meðal hagfræðinga sem fórnarkostnaður. Til að ræða hann af viti þurfa menn að átta sig á því hvernig hann verður til. Hann verður til í hvert sinn sem við veljum milli þeirra kosta sem okkur standa til boða. Ef kona velur að eignast barn getum við gert ráð fyrir afleiðingum þeirrar ákvörðunar, ekki síst fjárútlátum um ókomin ár. Þessi útgjöld eru meiri óvissu háð en til dæmis bílakaup þar sem menn greiða fasta upphæð mánaðarlega í ákveðinn tíma. Við þetta bætist að miklum tíma þarf að verja með barninu. Allt þetta hefur einfaldlega í för með sér að að sá fórnarkostnaður leggst á móðurina að hún missir af hærri tekjum en hún hefði ella haft.“
Karen Palasek bendir á að þessar tekjur sem móðirin missir af séu í raun aðeins fræðilegur tekjumissir enda ætti það ekki að koma neinum á óvart að allur sá tími sem fer í barnauppeldi dragi úr möguleikum foreldra til að sinna öðrum störfum. Það er óhætt að taka undir með Palasek um að slík skuldbinding við líf annarrar manneskju ætti ekki að koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Engu að síður telja ýmsir það „sanngjarnt“ að aðrir en foreldrarnir sjálfir beri kostnaðinn af þessari skuldbindingu. Þeir sem vilja leggja skatta á þá sem ekki eiga börn til að koma til móts við foreldra sem þurfa að leggja út fyrir bleium, tannréttingum, hlaupahjólum og Pókemon þurfa að svara því hvers vegna líf skattgreiðendanna er svo ómerkilegt í samanburði við líf foreldra. Þeir sem ákveða að eignast ekki börn (að ógleymdum þeim sem vilja það en geta ekki) fara á mis við ýmislegt sem foreldrar meta mikils. Það er vart óhætt að nefna þá hugmynd hér – þar sem einhver mannlífsskipuleggjandinn gæti tekið hana upp á sína – að þeir sem eiga engin börn en greiða skatta til að kosta fæðingarorlof, barnabætur, leikskóla o.s.frv. fái afnot af börnum annarra til að bæta þeim upp barnleysið. Þá væri einnig búið að leiðrétta stöðu barnlausra og allir fengju eins. Rétt eins og börn „sanngjarnra“ foreldra fá öll eins í skóinn fyrir jólin alveg burtséð frá því hvort þau vilja það eða ekki.
Niðurstaða greinar Palasek er einfaldlega sú að þótt fólk fórni tekjumöguleikum og tíma sínum í barneignir leiði það ekki sjálfkrafa til þess að ríkinu beri að blanda öðrum í málið.