Helgarsprokið 17. desember 2000

352. tbl. 4. árg.

Líklega þætti Vef-Þjóðviljinn í senn svartsýnn og alhæfingargjarn ef hann héldi því fram að aldrei verði nokkurt mál lagt fyrir „samkeppnisyfirvöld“ með þeim árangri að þau skili skynsamlegri niðurstöðu. Og af því að Vef-Þjóðviljinn vill hvorki vera svartsýnn né alhæfingargjarn þá lætur hann slíka spádóma liggja milli hluta. Hann fær sig þó ekki til að þegja yfir því að undanfarið hefur margt slæmt komið frá samkeppnisyfirvöldum og fátt gott. Síðast liðinn föstudag gaf samkeppnisráð til dæmis frá sér eitt álit og einn úrskurð, sem hvort um sig sver sig í ættina. Samkeppnisráð fann út að sameining tveggja banka, sem eru í meirihlutaeigu sama aðila, stæðist ekki íslensk lög og það úrskurðaði að eigendum tiltekinnar prentsmiðju væri óheimilt að selja eigendum annarrar prentsmiðju þessa eign sína.

Ekki þarf að rekja fyrir lesendum þann feril sem lauk með umræddu áliti samkeppnisráðs á væntanlegri sameiningu Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Vef-Þjóðviljinn hefur áður lýst skoðun sinni á því að stjórnmálamenn standi slíku í stað þess að selja bankana og láta nýjum eigendum eftir að meta hvort sameina eigi þá eða ekki. Það má því vel vera að með úrskurði samkeppnisráðs hafi ein villan verið leiðrétt með annarri. Vef-Þjóðviljinn vill hins vegar láta þess getið að honum þykir sem taugaveiklunarkenndur hernaður nokkurra starfsmanna samkeppnisstofnunar gegn því fólki sem vill sameina fyrirtæki sín sé ekki einungis brosleg barátta við vindmyllur heldur orðinn að alvarlegu vandamáli sem skynsamir menn verði að berjast gegn af öllum mætti. Því miður verður það víst að vera varnarbarátta fyrst um sinn, því hin nýkomna trú á „samkeppnisreglur“ hefur verið breidd út með óhugnanlegum hraða undanfarin misseri og er orðin að almennri hjátrú eirðarlausra stjórnmálamanna sem halda að „nútíminn“ krefjist þess að þeir setji reglur um stærstu sem smæstu hluti mannlegs lífs. Þessir stjórnmálamenn hafa undanfarin ár látið „sérfræðinga í samkeppnismálum“ teyma sig út í að setja á atvinnulífið áður óþekktar hömlur og löggilda ýmis tískuhugtök sem sömu „sérfræðingar“ veifa nú óspart framan í forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem enn vilja sjálfir ráða því hvernig þeir haga sínum rekstri.

Hugtök eins og „markaðsráðandi staða“ og „skaðleg áhrif á samkeppni“ ríða nú húsum og vei þeim sem nær „markaðsráðandi aðstöðu“ eða hefur með öðru móti „skaðleg áhrif á samkeppni“. Það þarf víst varla að deila um þetta, hugsar fólk, því hver vill ekki sem mesta samkeppni? Það sem „hefur skaðleg áhrif á samkeppni“, það á bara að vera bannað með lögum. Þeir sem reyna að hafa „skaðleg áhrif á samkeppni“, það geta bara verið eigingjarnir spilltir kallar, sjálfsagt afkomendur dönsku einokunarkaupmannanna. Nei, svoleiðis lið viljum við ekki hafa í dag, nú er árið 2000 og hér er nútímalegt lýðræðisþjóðfélag þar sem gilda ákveðnar reglur sem þeir hjá Samkeppnisstofnun, hvað sem þeir heita nú aftur blessaðir, sjá um að gæta fyrir okkur.

Eða svo er oft að heyra á fólki. En þó Vef-Þjóðviljinn sé þeirrar skoðunar að samkeppni eigi að vera frjáls – það er að segja: engum bönnuð – þá getur hann engan veginn samþykkt að það eigi að vera bannað að „hafa skaðleg áhrif á samkeppni“. Því hvað getur ekki „haft skaðleg áhrif á samkeppni“, ef út í það er farið? Það dregur úr samkeppni í hvert skipti sem verslun er lokað. Það dregur úr samkeppni ef hætt er að framleiða vöru. Það dregur úr samkeppni ef ein verslun hættir að selja tiltekna vöru. Allt þetta „hefur skaðleg áhrif á samkeppni“. Vef-Þjóðviljinn heldur því hins vegar fram að það komi ekki öðrum við. Töfraorðin, „skaðleg áhrif á samkeppni“, eigi ekki að veita hinu opinbera nokkurn rétt til aðgerða. Eða dettur kannski nokkrum heilbrigðum manni í hug að ríkið eigi að geta skipað manni, sem lokar fyrirtæki sínu, að opna það aftur? Og, ef mönnum þykir sú hugmynd fráleit, hvaðan kemur þá sú nútímakenning að ríkið geti bannað þessum sama manni að selja einhverjum öðrum þetta sama fyrirtæki?

Því miður eru þeir til sem fagna því áliti samkeppnisráðs að ríkið megi ekki sameina tiltekna tvo banka sem eru að mestu í þess eigu. Hér er rétt að horfa fram hjá þeim sem hafa raunverulegan hag af því að ekkert verði úr þessari sameiningu, ef til vill öðrum stórum bönkum sem starfa hér nú eða ætla sér það í náinni framtíð. Þessir aðilar hafa raunverulegar ástæður til að fagna, en sama verður ekki sagt um marga aðra. Í raun ættu allir venjulegir menn að fyllast hryllingi í hvert sinn eftirlitsmönnum hins opinbera tekst gagnrýnilítið að snúa niður þá sem ekki voru að brjóta rétt nokkurs manns.

Hugsum okkur, svo dæmi sé tekið, að Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands hafi í raun verið reknir sem einn banki, Landbúnaðarbanki Íslands. Svo gerist það einn daginn að eigendur bankans ákveði að skipta bankanum sínum í tvennt, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Þeir sjái það hins vegar fljótt að þetta hafi verið tómur misskilningur hjá sér og þeir hætti við allt og ákveði að sameina bankana aftur. Dettur þá nokkrum heilbrigðum manni í hug að það komi nokkrum öðrum við? Að það sé bara hægt að segja: „Nei, þá hafið þið sko skaðleg áhrif á samkeppni“ – og banna þeim að sameina bankana aftur? Nei, líklega dytti fáum það í hug. En svo er eins og sama fólki fatist flugið þegar bankarnir hafa lengi verið reknir hvor í sínu lagi. Í raun snýst mál sem þetta um eitt: Eru, eða eru ekki til menn sem eiga sérstaka heimtingu á því að á Íslandi verði um aldur rekin, og hvort í sínu lagi, þessi tilteknu hlutafélög, Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf. Hvar eru slíkir menn? Vef-Þjóðviljinn heldur því fram að þeir séu ekki til.

Og Vef-Þjóðviljinn heldur því fram að sama gildi almennt um sameiningu fyrirtækja. Menn eiga nefnilega ekki heimtingu á því að aðrir menn reki fyrirtæki, hvorki í einu lagi né tvennu. Og ákvarðanir manna um að reka fyrirtæki eða reka ekki fyrirtæki, þær eru þeirra mál en ekki annarra. „Áhrif á samkeppni“, góð eða slæm, eru alger aukaatriði, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.