Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa um nokkra hríð sagt okkur að þeir vonist til að dragi úr verðhækkun. Flestir geta tekið undir þessa ósk. Björn Bjarnason menntamálaráðherra heimilaði hins vegar í gær Ríkisútvarpinu að hækka afnotagjöld sín um 7% frá næstu áramótum eftir ósk þess efnis frá útvarpsstjóra. Launamaður þarf þá að vinna sér inn 3.700 krónur á mánuði fyrir skatta til að eiga fyrir gjaldinu til RÚV. Þessi verðhækkun eru verri en flestar aðrar þar sem menn geta ekki vikið sér undan henni með því að draga úr eða hætta kaupum á „þjónustu“ Ríkisútvarpsins. Þessi verðhækkun bitnar þó ekki á starfsmönnum Ríkisútvarpsins sem greiða ekki afnotagjöldin þótt engar slíkar undanþáguheimildir séu í lögum. Tveimur menntamálaráðherrum hefur ítrekað verið bent á þetta á undanförnum átta árum án þess að þeir hafi séð til þess að RÚV fari að lögum. Ekki nýtur æðsti yfirmaður RÚV sömu undanþágu og starfsmenn þess?
Illugi Jökulsson hélt því fram á Skjá 1 í gærkveldi að tvöföldun Reykjanesbrautar myndi lítið draga úr árekstrum bíla sem koma úr gagnstæðum áttum þar sem menn ækju bara hraðar en áður. Á hvernig bíl er Illugi? Þegar brautin hefur verið tvöfölduð verða 11 metrar á milli brauta í hvora átt.