Miðvikudagur 6. desember 2000

341. tbl. 4. árg.

Já, það er reisn yfir höfðingjanum Al Gore þessa daga. Að minnsta kosti verður ekki annað ráðið af íslenskum fjölmiðlamönnum sem andaktugir greina frá því að Gore hafi nú kveðið upp úr með það að ef hæstiréttur Flórida hafnar öllum hans kröfum þá muni hann einfaldlega leggja árar í bát og játa sig sigraðan. Ekki vera neitt að þæfa málið. Gore er nefnilega ekki þannig maður að hann sætti sig ekki við það að tapa.

Þetta er mjög stórmannleg afstaða hjá Gore og í fullu samræmi við aðra frammistöðu þessa merka stjórnmálamanns. Það sem gerst hefur er nokkurn veginn á þessa leið: Samkvæmt upphaflegum kosningatölum var George W. Bush rétt kjörinn forseti Bandaríkjanna. Samkvæmt endurtalningu í Flórida var George W. Bush rétt kjörinn forseti Bandaríkjanna. Samkvæmt annarri endurtalningu var George W. Bush rétt kjörinn forseti Bandaríkjanna. Samkvæmt opinberum úrslitum í Flórida, birtum eftir að Hæstiréttur Flórida hafði með vægast sagt umdeildanlegri ákvörðun ákveðið að lengja talningartímann, var George W. Bush rétt kjörinn forseti Bandaríkjanna. Sá mæti maður, Al Gore, hefur kært flest sem hægt er að kæra í þessum kosningum og enn sem komið er hefur hann ekki haft erindi sem erfiði. Og nú þegar skammt er þar til kjörmenn eiga að koma saman og velja næsta forseta Bandaríkjanna, þá eru síðustu áfrýjanir Gores komnar til hæstaréttar Flórída. Og þá sýnir Gore sinn kunna höfðingskap, heggur á hnútinn og segir hreint út að ef hann tapi einnig á æðsta dómstiginu – ja þá muni hann sýna stórhug og hætta baráttunni.

En ekki hvað? Kalla á herinn?

Í bæjarstjórn Seltjarnarness eiga sæti fulltrúar tveggja fylkinga. Annars vegar eru bæjarfulltrúar sjálfstæðisfélagsins á staðnum og hins vegar eru fulltrúar svokallaðs „Bæjarmálafélags“ en það er safn vinstri flokkanna á Nesinu. En þó þessi tvö félög, Sjálfstæðisfélagið og Bæjarmálafélagið, séu öflug á Nesinu þá er þriðja aflið ekki síður sterkt, þó það hafi undanfarið starfað á laun og beðið færis. Hér er að sjálfsögðu átt við Stálfstæðisfélag Seltirninga sem margir þekkja af góðu. En þó þeir í Stálfstæðisfélaginu hafi lengi starfað neðanjarðar þá hefur Vefþjóðviljinn heimildir fyrir því að á því kunni að verða breyting á næstu misserum og hyggist Stálfstæðisfélagið jafnvel bjóða fram eigið bæjarstjóraefni þegar reynslutímabili núverandi bæjarstjóra, Sigurgeirs Sigurðssonar, lýkur.

Og til efla þrek sinna manna hefur félagið nú með glæsilegum blaðaauglýsingum boðað til jólafundar. Vefþjóðviljinn hvetur alla stálfstæðismenn til að fjölmenna.