„Frelsið glatast sjaldan allt í einu“ sagði skoski heimspekingurinn David Hume og hefur Vefþjóðviljinn stundum séð ástæðu til að rifja þau orð upp. Því þó að fáir ef nokkrir gangist við því að þeir berjist fyrir því að borgararnir verði með öllu sviptir frelsi sínu, þá er staðreyndin sú að vart líður sá dagur þar sem stjórnlyndir menn reyna ekki að finna einhverja leið til að skerða það frelsi sem fólk býr við. Ein lítil tilraun er gerð á Alþingi um þessar mundir með frumvarpi sem þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram um ábyrgðarmenn. Og eins og aðrar frelsisskerðingar er þessi rökstudd með því að hún yrði fólki í raun til góðs.
Meðal þess sem stjórnlyndum þingmönnum með barnfóstrutilhneigingar er mest uppsigað við, er samningafrelsi almennra borgara. Ganga þeir sífellt lengra í tilraunum sínum til að skipta sér af því hvernig borgararnir semja um sín mál. Sífellt eru stigin stutt skref í þessari herferð, mælt er fyrir um skorður við frjálsum samningum á nýju og nýju sviði og á síðasta áratug var meira að segja lögfest sérstök heimild til dómstóla að víkja til hliðar – og jafnvel breyta – einstökum samningsákvæðum manna, ef dómstólunum þættu þau ósanngjörn. Allar þessar skerðingar hafa verið rökstuddar með því að þær séu fólki í raun fyrir bestu; að þær séu settar til að koma í veg fyrir að fólk fari illa að ráði sínu. Og af því fáir stjórnmálamenn vilja vera á móti því sem „fólki er fyrir bestu“ þá verða þessar frelsisskerðingar að lögum, ein af annarri.
Og sama er sagt um nýja frumvarpið um ábyrgðarmenn – það á nefnilega að vera fólki fyrir bestu að skerða frelsi þess til að ábyrgjast skuldir annarra. Eins og menn vita, þá gerist það öðru hverju að ábyrgðir „falla á“ þá sem hafa tekið þær á sig. Menn sem hafa lagt íbúð sína að veði fyrir því að annar maður borgi tiltekna skuld, hafa orðið fyrir því að þurfa að selja íbúðina þegar skuldarinn borgaði ekki skuldina. Og við þessu vilja góðgjarnir þingmenn bregðast með lagasetningu. Þeir vilja að mönnum verði gert því sem næst útilokað að ábyrgjast skuld annars manns nema þeir hafi sjálfir hag af lánveitingunni. Þeir orða það reyndar ekki alveg hreint út, en afleiðingin af samþykkt frumvarpsins yrði nokkurn veginn þessi. Verði frumvarpið að lögum verður nefnilega óheimilt að gera aðför í íbúð ábyrgðarmannsins og einnig verður óheimilt að krefjast gjaldþrotaskipta ábyrgðarmanns. Þessi skilyrði yrðu til þess að ábyrgðaryfirlýsing yrði lánveitandanum næstum gagnslaus og yrði það til þess að færri hefðu aðgang að lánsfé en áður.
Það er sem sagt sama gamla sagan. Einhverjir fara illa að ráði sínu og ábyrgjast skuldir þeirra manna sem ekki standa í skilum og það á að verða til þess að öllum hinum verður gert mun erfiðara að styðja við bakið á þeim sem þeir vilja styðja. Ef þetta frumvarp verður að lögum þá verður búið að skerða enn eitt svið samningafrelsisins í landinu. Foreldrar sem vilja aðstoða börn sín sem eru að byrja að búa, munu allt í einu ekki geta ábyrgst lán þeirra eða „veitt þeim veð“, af því góðgjarnir forræðishyggjumenn hafa viljað hafa vit fyrir þeim í þessu máli sem öðrum. Ef foreldrarnir þrjóskast við og reyna að aðstoða þrátt fyrir þetta, þá þurfa þeir annað hvort að sviðsetja að þeir hafi hag af lánveitingunni – foreldrar fara þá á pappírnum að „kaupa íbúðina með krökkunum“ – eða leita annarra leiða, svo sem með því að skrifa upp á ótal víxla – sem þó verða ekki kallaðir tryggingarvíxlar – með tilheyrandi skriffinnsku og stimpilgjöldum.
Og þeir sem eftir samþykkt frumvarpsins munu eiga erfiðara en áður með að fá lán, hverjir ætli það verði nú? Það verða þeir sem ekki fá lán án ábyrgðarmanna. Það verða ekki þeir sem nú eru vel stæðir, það verða þvert á móti þeir sem hafa úr litlu að moða, það verður ungt fólk, það verða þeir tekjulægri og það verða þeir sem einu sinni hafa lent í peningavandræðum – jafnvel verið úrskurðaðir gjaldþrota – en eru að reyna að koma sér á réttan kjöl að nýju. Þetta er sá hópur sem verst verður úti ef þetta nýjasta manngæskufrumvarp stjórnlyndra þingmanna verður að lögum.
Enn hafa forræðishyggjumennirnir þó ekki gengið svo langt að banna öðru fólki að gefa eigur sínar. Ef frumvarpið til laga um ábyrgðarmenn nær fram að ganga þá verður staðan því sú að menn mega gefa tilteknar eigur sínar en ekki veðsetja þær. En kannski verður það næsta skref. Almennt bann við „of dýrum“ gjöfum. Hver veit hvað stjórnlyndum þingmönnum dettur í hug næst?