Nú í nóvember eru tíu ár liðin frá því Margrét Thatcher lét af embætti leiðtoga breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Stóra-Bretlands. Hið þekkta tímarit, The Spectator fjallaði af því tilefni um stjórnartíð hennar í leiðara síðasta heftis og er skemmst frá því að þar kveður við annan tón heldur en gjarnan má heyra hjá örum og áköfum spekingum vinstri intelligensíunnar hér á landi, sem hafa á hraðbergi alls kyns slagorð og upphrópanir hvenær sem Margréti Thatcher og hennar störf ber á góma. The Spectator segir að þegar Thatcher kom til valda árið 1979 hafi Bretland verið á hraðri hnignunarbraut og sú skoðun verið almenn að þeirri þróun yrði ekki snúið við. Þá hafi sú skoðun verið útbreidd að landið ætti ekki annars úrkosti en grípa dauðahaldi í Evrópubandalagið eins og drukknandi maður í leit að landi. Þessu öllu segir The Spectator að Margrét Thatcher hafi breytt.
Blaðið segir, að áhrifin af stjórnartíð Thatcher hafi verið slík, að nú, áratug eftir að ellefu ára valdaferli hennar lauk, megi vart finna uppgjafaranda annars staðar á Bretlandseyjum en í hópi vinstri sinnaðra háskólamanna sem gangi fyrir skattfé, örfárra áhrifamanna innan breska Ríkisútvarpsins og nokkurra þingmanna Verkamannaflokksins. Segir í leiðaranum að þó ekki þurfi að telja upp allt það sem Thatcher hafi gert til þess að rífa Bretland upp úr lægðinni þá sé rétt að rifja það upp að það sem hún tók sér fyrir hendur var ekki eins auðvelt og sjálfsagt og margir ímynda sér nú að það hljóti að hafa verið. Þegar Margrét Thatcher hafi komið til valda hafi þótt eðlilegt að breskur almenningur greiddi með sköttum fyrir taprekstur heilla atvinnugreina og þá hafi alls ekki þótt augljóst að losa yrði fólk undan algeru ofurvaldi verkalýðsfélaganna eða að almennir borgarar mættu kaupa sér húsnæði. Við allar sínar þjóðfélagsbreytingar mætti Margrét Thatcher gríðarlegri andspyrnu vinstri aflanna – gjarnan sömu manna og nú segjast vera nútímalegir og telja að það sem hún barðist þá fyrir séu sjálfsagðir hlutir.
Á stjórnmálaferli sínum lagði Margrét Thatcher óhrædd til atlögu við ótal heilagar kýr vinstri manna. Gegn harðri andstöðu vinstri manna – ekki bara á Englandi heldur um allan heim – verkalýðsforstjóra, rétttrúaðra fjölmiðlamanna, talandi háskólamanna og almennra auðnuleysingja, barðist hún fyrir þjóðfélagsbreytingum sem hafa skilaðhinum almenna manni ávinningi sem hann mun lengi búa að. En fyrir þetta hefur hún einnig unnið sér inn hatur þessara andstæðinga sinna og seint mun koma sá dagur að almennur froðusnakkari hafi ekki á hraðbergi órökstudd hrakyrði um hana og stjórnarár hennar.
The Spectator er hins vegar ekki í þeim hópi heldur þvert á móti. Að minnsta kosti gefur blaðið henni þá einkunn sem valda mun taugaæsingi víða um heim. Ekki síst lokaorð leiðarans: „Ef Thatcher og Reagan hefðu stjórnað með öðrum hætti en þau gerðu er ekki víst að Tony Blair sæti á skrafi í Moskvu með lýðræðislega kjörnum leiðtoga á borð við Vladimir Putin. Thatcher sá fyrir hrun kommúnismans og endursameiningu Evrópu. Hún var pólítísk guðmóðir athafnalífsins, alls þess sem getur af sér frumkvæði og sköpun í Bretlandi í dag, hvort sem um er að ræða netmilljónamæringa, frumlega listamenn eða tæknina sem færði þér þetta tímarit. Verk hennar lifa.“