Dómsmálaráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi frumvarp til víkkunar svonefnds refsiramma í fíkniefnabrotum. Önnur helstu rök dómsmálaráðherra fyrir víkkuninni eru þau að núverandi refsirammi hafi þegar verið fullnýttur og því sé nauðsynlegt að dómarar hafi eitthvað upp á að hlaupa ef alvarlegri fíkniefnamál en áður hafa þekkst, rekur upp á fjörur þeirra. Hin rökin eru þau að fælingarmáttur fíkniefnalöggjafarinnar aukist í réttu hlutfalli við auknar heimildir til þyngri refsinga.
Fyrri rökin hvíla á þeirri forsendu að refsiþyngd skuli vera í réttu hlutfalli við alvarleika eða umfang afbrota og með nokkrum sanni mætti nefna hana sanngirnisforsendu. Þessi forsenda kristallast einmitt í dómum í fíkniefnamálum undanfarin ár, þar sem árafjöldi frelsissviptinga nálgast að vera línulegt fall af innfluttum kílóum fíkniefna í hverju máli. En eins og kunnugt er hefur sérkennileg verðbólga hlaupið í dóma í fíkniefnamálum undanfarinna ára sem að öllum líkindum leiðir til verðhækkunar fíkniefna og fjölgunar alvarlegra glæpa eins og bent er á hér að neðan.
En þessi forsenda hvílir svo annarri forsendu sem kalla mætti skynsemisforsendu og hún er sú að hugsanlegur afbrotamaður sé skynsamur. Þ.e. að hinn hugsanlegi afbrotamaður byggi ákvörðun sína á áhættugreiningu þar sem hann metur ávinning af innflutningi með tilliti til hugsanlegrar refsingar sem hann metur svo aftur með tilliti til þess hverja líkurnar eru á að upp um hann komist. Margt bendir til að þessi forsenda sé rétt og m.a. færir Isaac Ehrlich fyrir því ágæt rök í grein sinni: „Participation in Illegitimate Activities: An Economic Analysis“ í bókinni Essays in the Economics of Crime and Punishment.
Víkkaður refsirammi, hefur þó aðeins áhrif til minnkandi innflutnings og sölu ef markaðsvirði fíkniefna helst óbreytt eða lækkar. Ef verð fíkniefna fer hækkandi, eykst ávinningurinn á meðan áhættan helst óbreytt og þar með eykst hvatinn til innflutnings og sölu. Víkkun refsirammans eða öllu heldur hækkun hámarksverðsins hefur það í för með sér að jaðarkostnaður afbrotamannsins minnkar þ.e. afbrot, umfram fíkniefnabrotið, hafa lítinn sem engan kostnað í för með sér fyrir hann. Af þessu leiðir að sá sem flutt hefur inn mikið magn fíkniefna hefur mikinn ávinning en lítinn tilkostnað af því t.d. að beita ofbeldi eða hreinlega myrða vitni, vitorðs- eða löggæslumenn.
Með þessari víkkun refsirammans sem leiðir til lækkaðs jaðarkostnaðar afbrotamanna í fíkniefnamálum er fleirum stefnt í meiri hættu af fíkniefnaviðskiptum en áður hefur verið. Þannig stefnir dómsmálaráðherra að því, með frumvarpi sínu, að snúa hlutverki ríkisvaldsins gersamlega við þannig að við glæpum án fórnarlamba liggi þyngstu refsingar um leið og frumvarpið leiðir til fjölgunar á raunverulegum glæpum og þar með fjölgunar fórnarlamba. Frumvarpið, sem er í mótsögn við yfirlýstan tilgang sinn eins og hér hefur verið lýst, færir ráðherranum eflaust tímabundnar vinsældir en leggur um leið ómældan kostnað og þjáningar á almenning auk þess að kynda enn frekar undir því báli nornaveiða sem barátta stjórnvalda gegn innflutningi, sölu og neyslu fíkniefna óneitanlega er.