Miðvikudagur 8. nóvember 2000

313. tbl. 4. árg.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn hafa lagt til að Reykjavíkurborg hefji skipaútgerð. Hafa þeir fundið skip til útgerðarinnar. Skipið liggur við bryggju í New York og ber heitið Íslendingur. Þetta sama skip kom einnig við sögu þegar borgarfulltrúar sama flokks ákváðu fyrir nokkrum árum að láta til sín taka í skipasmíði og létu almenning styrkja smíði skipsins. Virðist því sem hér sé komin tillaga um að almenningur kaupi skipið á nýjan leik – án þess að hafa selt það í millitíðinni. Þessa tillögu um nýja bæjarútgerð gátu sjálfstæðismenn í borgarstjórn lagt fram þótt þeir hafi verið uppteknir að undanförnu við að lofa því að „embætti staðarhaldara í Viðey verði endurreist“ komist þeir til valda á ný.

Á sama tíma og sjálfstæðismenn í borgarstjórn mega ekki til þess hugsa að eitt embætti í borgarkerfinu leggist af og hafa áform um bæjarútgerð fara þeir fyrir grátkór sveitarstjórnarmanna sem verður ekki huggaður fyrr en skattar hafa verið hækkaðir á landsmenn til að fjármagna afar brýn og ómissandi verkefni sveitarfélaganna. Þeir neita því einnig að sveitarfélögin geti farið betur með það fé sem þau fá nú þegar með nauðung af landsmönnum og vísa í lögbundin verkefni sveitarfélaga. Hvar ætli þess sé getið í lögum að Reykjavíkurborg verði að stunda útgerð? Hvar er kveðið á um nauðsyn staðarhaldara í lögum?