Vestmannaeyingar hafa barið það í gegn að litið er á ferju sem siglir út í Heimaey sem þjóðveg eitt. Ferjunni er siglt samkvæmt áætlun hvort sem nýting er góð eða slæm og skattgreiðendur sjá til þess að Eyjamenn þurfa ekki að greiða fullt verð fyrir að fara að heiman og heim. Nú ber hins vegar svo við að þessi niðurgreiðsla dugar ekki lengur og Eyjamenn vilja líka að skattgreiðendur leggi sérstaklega út fyrir því að ferjan verði gerð út frá Vestmannaeyjum. Ekki má reka ferjuna frá skrifstofu sem staðsett er annars staðar en í Vestmannaeyjum og skiptir þá engu þótt háir fjármunir sparist.
Ef ferjan er þjóðvegur, sem er umdeilanlegt, þá eru rök Eyjamanna í raun og veru þau að vegagerð mætti aðeins vera í höndum heimamanna á hverjum stað. Þannig yrði Djúpamalbik á Djúpavogi og Hnífsborun í Hnífsdal að sjá um malbiks- og borunarvinnu á viðkomandi stöðum. Og þó Djúpamalbik og Hnífsborun væru tugum prósenta dýrari fyrirtæki en stærri og nokkru þekktari fyrirtæki annars staðar á landinu þá mundi það engu breyta, því ekki mætti ganga á rétt heimamanna. Slíkur hugsunarháttur þýðir að vísu að minna er hægt að leggja af vegum, færri ferjum verður haldið úti og – síðast en ekki síst – skattar eru hærri en ella.
En ekkert af þessu skiptir máli, bara ef fyrirtæki frá Vestmannaeyjum fær að reka ferjuna sem siglir milli lands og Eyja.
Komið hefur í ljós að ferð ástsæls forseta íslenska lýðveldisins til Indlands mun skila miklum árangri. Að vísu aðeins fyrir einn mann, en einn er þó hver einn og ekki ástæða til að vanmeta það. Þessi eini maður er væntanlegur viðskiptafulltrúi Halldórs Ásgrímssonar í Bombay á Indlandi, en Halldór lýsti því yfir í ferð sinni til Indlands með forsetanum að ástæða sé til að stofna viðskiptaskrifstofu Íslands í borginni. Halldóri er að takast að verða nokkuð dýr utanríkisráðherra, því svo virðist sem hann megi helst ekki koma til nokkurrar borgar án þess að þar sé sett upp rándýrt sendiráð eða að minnsta kosti viðskiptaskrifstofa. Halldór er alveg sannfærður um að einkafyrirtæki séu engan veginn í stakk búin til að sinna viðskiptum sínum án aðstoðar hins opinbera og að án þess muni engin viðskipti verða. Nær væri fyrir Halldór að tylla sér niður hér heima og velta því fyrir sér hvort ríkið geti ekki þvælst minna fyrir einkafyrirtækjum og þannig gefið þeim aukið svigrúm til að stunda viðskipti. Svo má líka benda á að skattar til rekstrar utanríkisþjónustunnar fara ekki í atvinnuuppbyggingu eða aukna markaðssókn einkaaðila erlendis.