Samkeppnisstofnun ákvað í síðustu viku að tryggja sig í sessi sem helsti andstæðingur viðskiptafrelsis á Íslandi. Með úrskurði samkeppnisráðs var tveimur greiðslukortafyrirtækjum meinað að setja hámarksúttektarheimild á kort viðskiptamanna sinna þegar þau eru notuð á nokkrum veitingahúsum. Kortafyrirtækin höfðu lent í vandræðum vegna hárra úttekta á þessum veitingahúsum og ákváðu að gera tilraun til að stemma stigu við þessum vandræðum með því að herða þá skilmála sem gilda um kortanotkunina á þessum stöðum. Enda lendir það á kortafyrirtækjunum ef korthafar standa ekki í skilum. Það er því ekki nema eðlilegt að þau geri sitt til að draga úr þeirri áhættu sem felst í því að láta menn hafa kort með ótakmarkaðri úttektarheimild. Þess ber að geta að enginn er neyddur til að nota þessi kort og ekkert fyrirtæki á „rétt“ á að kortafyrirtækin taki þau í viðskipti. Þá eru ýmsir aðrir greiðslumiðlar í boði. Samkeppnisráð hefur nú meinað fyrirtækjunum að draga úr þessari áhættu.
En það er fleira sem samkeppnisráð hefur spillt fyrir um með þessari íhlutun sinni. Ráðið hefur komið í veg fyrir að fyrirtæki geti neitað hvert öðru um viðskipti ef þeim líkar ekki við viðskiptahætti. Þetta þýðir með öðrum orðum að þú getur haft hvaða orðspor sem er í viðskiptum, samkeppnisráð mun ætíð koma til bjargar ef einhver fær nóg af þér. Samkeppnisráð er því í raun að kippa úr sambandi þeirri sjálfvirku mótspyrnu sem er á frjálsum markaði við óvönduðum vinnubrögðum.
Úrskurður samkeppnisráðs um þetta mál er upp á 17.414 orð eða eins og 58 Sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna. Í honum eru meðal annars birt bréf sem fóru milli forsvarsmanna greiðslukortafyrirtækjanna í tölvupósti. Það er í stíl við önnur störf „samkeppnisyfirvalda“ að nú eigi menn það á hættu að bréf sem þeir senda úr vinnu sinni verði gerð opinber af „samkeppnisyfirvöldum“ og notuð sem skemmtiefni í fjölmiðlum.
Verðlagsstofnun, forveri samkeppnisstofnunar, skammtaði samkeppni að hluta með því að ákveða hámarksverð. Samkeppnisstofnun skammtar hins vegar alla þætti samkeppninnar: Verð má ekki vera of hátt enda um okur að ræða, ekki of lágt þar sem þá er það undirboð og ekki það sama og hjá næsta fyrirtæki þar sem um samráð er að ræða. Ekki má kaupa fyrirtæki eða selja nema með leyfi samkeppnisyfirvalda og ekki sameina fyrirtæki nema með þóknanlegum úrskurði frá skömmtunarskrifstofu samkeppnismála. Nú bætist við að forsvarsmenn fyrirtækja verða að láta eins og ekkert sé þótt þau hafi ama af viðskiptum við ákveðna aðila. Allt er bannað nema „samkeppnisyfirvöld“ hafi sérstaklega leyft það.