Nokkuð hefur verið rætt um fyrningarleið auðlindanefndar en í henni felst að ríkið geri aflaheimildir útgerða um land allt upptækar og bjóði þær svo upp á ári hverju. Hafa sumir stuðningsmenn þessarar tillögu gengið svo langt að kalla þessa eignaupptöku og ríkisuppboð „markaðsvæðingu sjávarútvegsins“.
Í skýrslu auðlindanefndar segir hins vegar um um þessa leið: „Meginatriði þessarar leiðar er fólgið í því að allar aflahlutdeildir fyrnist um fastan hundraðshluta á ári – þ.e.a.s. gangi til ríkisins – en með því er komið á festu um varanleika hlutdeildanna…“.
Í öðru riti segir: „Það er ekki einkenni kommúnismans, að hann afnemi eignarréttinn yfirleitt, heldur hitt, að hann afnemur hinn borgaralega eignarrétt. Í þessum skilningi geta kommúnistar orðað kenningu sína með tveimur orðum: afnám séreignarréttarins.“ Hér er vitnað í Kommúnistaávarpið eftir Marx og Engels.
Stuðningsmenn fyrningarleiðarinnar telja það einnig víst að allir muni sitja við sama borð þegar séreignarréttur á aflahlutdeildum hefur verið afnuminn og kemur að uppboði ríkisins á þeim. Verður það þá í fyrsta sinn í sögunni sem ýmsir hagmunahópur munu ekki hafa áhrif á gjörðir stjórnmálamanna. Líklegra er þó að ýmis skilyrði verði sett um uppboðið til að fullnægja þörfum aðgangsharðra þrýstihópa. Nokkur hugsanleg dæmi má nefna: Engin útgerð má bjóða í meira en 10% aflahlutdeilda. Ákveðinn hluti aflahlutdeilda komi í hlut hvers kjördæmis. Landa verður hluta aflans í ákveðnu kjördæmi. Aðeins smábátaútgerð má bjóða í hluta aflans. Aðeins útgerðir í byggðum sem standa höllum fæti mega bjóða í hluta aflahlutdeilda. Byggðastofnun hefur heimild til að styðja tilboð þeirra útgerða sem landa í byggðarlögum þar sem atvinnuástand er slæmt.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Það á eftir að útdeila því fé sem fæst með útboðinu. Munu vafalaust koma fram ýmsar ágætar hugmyndir um hvert féð skal renna. Aftur gerir auðlindanefnd ráð fyrir að stjórnmálamenn muni ekki láta háværustu hagmunahópana hafa áhrif á sig og allir verði ánægðir þegar útdeilt hefur verið úr þjóðarsjóðnum.