„Við þurfum að skila jörðinni í sama eða betra ástandi til komandi kynslóða“, segja sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar gjarnan og telja það sjálfsagt að við skerðum efnahagslega velsæld okkar til að ná þessu markmiði. Oft eru þessir sömu menn þeirrar skoðunar að jafna þurfi lífskjörin. Flest bendir hins vegar til þess að afkomendur okkar muni verða ríkari en við erum, rétt eins og við erum margfalt ríkari en kynslóðirnar á undan okkur. Þeir sem vilja að við skerðum lífskjör okkar fyrir komandi kynslóðir eru því að biðja um að efnaminna fólkið styðji við bakið á þeim sem ríkari verða.
En það er annar galli sem iðulega fylgir kröfunni um að við skilum jörðinni í sama eða betra ástandi til komandi kynslóða. Þessi galli felst í þeim leiðum sem umhverfisverndarsinnar telja að við eigum að feta að þessu marki. Í fyrsta lagi leggja þeir jafnan til að reglugerðum, boðum, bönnum og sköttum sé beitt til að breyta hegðun fólks og fyrirtækja þ.e.a.s. til að gera hegðunina „umhverfisvænni“. Það gildir þó hið sama um lög og reglur sem sett eru um umhverfismál og lög um önnur mál að ýmsir þrýstihópar hafa áhrif á þau. Fyrirtæki geta stutt slíkar reglur ef þær minnka líkurnar á því að þau fái keppni t.d. ef lögin gera stofnkostnað fyrir ný lítil fyrirtæki óyfirstíganlegan. Ýmis endurvinnsluiðnaður hefur hagsmuna að gæta þegar kemur að því að setja reglur um aukna endurvinnslu. Eigendur kolaorkuvera beita sér gegn vindmyllum og bera fyrir sig hávaða frá myllunum, sjónmengun og fugla sem fljúga í spaðana. Vatnsorkuver beita sér fyrir lögum um lægra brennisteinsinnihald í kolum og strangari mörkum fyrir útblástur. Vindmylluframleiðendur beita sér gegn vatnsorkuverum þar sem þau kalli á umfangsmikil uppistöðulón og skaði lífríki fallvatna. Það er mismunandi milli landa hvaða orkuframleiðendi er öflugastur og hefur greiðastan aðgang að þeim sem setja reglurnar. Reglunar hafa einnig sömu áhrif og skattar á „mengandi“ hegðun. Fyrirtæki sem eiga óhægt um að draga úr mengun þurfa að hætta rekstri eða flytja til landa þar sem aðrar kröfur eru gerðar. Að því leyti eru framseljanleg mengunarleyfi eða kvótar skárri kostur en þá geta fyrirtæki sem eiga erfitt með að draga úr mengun keypt kvóta af þeim sem fyrirtækjum sem eiga auðvelt með að draga úr mengun.
Helsti gallinn á málflutningi kröfugerðarmanna er takmarkaður skilningur á kostum einkaeignarréttar á auðlindum jarðar og frjálsum viðskiptum með hann. Auðlindir í einkaeign njóta þess umfram þær sem eru í allra eða einskis eign að þær hafa á sér verð. Góð umgengni um þær og skynsamleg nýting skilar eigendum þeirra ekki aðeins tekjum heldur einnig hærra verði þegar kemur að því að selja auðlindina. Ef ríkið á náttúruauðlindir má hins vegar búast við að skammtímasjónarmið ráði miklu um nýtingu þeirra. Stjórnmálamenn þurfa fylgi fyrir næstu kosningar og það er því freistandi fyrir þá að ofnýta auðlindir eins og fiskistofna til að bæta efnahagsástandið tímabundið eða virkja sem snöggvast til að bæta stöðu sína í vissu kjördæmi, svo nærtæk dæmi séu nefnd. Þá er ólíklegt að stjórnmálamenn hafi kjark í sér til að taka gjald af þeim sem vilja skoða ákveðin svæði þótt það sé nauðsynlegt til að takmarka átroðning andstætt því sem landeigendur almennt gera þegar ásókn í land, ár eða vötn þeirra eykst.
Að lokum má svo geta þess að margt bendir til þess að við séum einmitt að skila jörðinni betri til afkomenda okkar en við tókum við henni. Það er til dæmis niðurstaða bókarinnar Hið sanna ástand heimsins eftir Björn Lomborg sem kom út á íslensku í sumar. Það má segja að sú þróun geri kröfu umhverfisverndarsinna um að við skilum jörðinni í betra ástandi til afkomenda okkar ekki veigameiri heldur.