Stjórnvöld hafa sett frjálsum viðskiptum og athafnafrelsi borgaranna ýmsa stóla fyrir dyrnar. Einna þyngstur í vöfum og alvarlegastur virðist vera lög nokkur sem hlutu númerið 8/1993 og eru í daglegu tali kölluð samkeppnislögin. Með þeim lögum veittu stjórnvöld embættismönnum sínum ótrúlegar heimildir til að skipta sér af því sem einstaklingarnir taka sér fyrir hendur og hvernig þeir haga rekstri sínum og annarri starfsemi.
Svo óhugnanlegt sem það er, þá eru þeir ýmsir sem einlæglega trúa því opinber fyrirmæli um viðskiptahætti séu fallin til þess að stuðla að frjálsri samkeppni. Sumir virðast halda að á markaði starfi tvö ólík öfl, góð og slæm; neytendur og veitendur. Neytendur séu „góðir“ og veitendur, það er fyrirtækin, „slæm“ – og því verri sem þau eru stærri. Slíkum mönnum þykir gjarnan sem þessir tveir aðilar, neytendur og fyrirtæki, séu andstæðingar þar sem gróði annars sé tap hins. Og þar sem neytendurnir eru „góðir“ þykir þeim sem samkeppni sé frjálsust þegar „vondu“ fyrirtækjunum er settur stóllinn fyrir dyrnar.
Þó er það svo að eina ógnin við frjálsa samkeppni felst í hinu opinbera. Það, að samkeppni sé frjáls, þýðir það að opinbert vald bannar hana ekki. Sé hverjum sem vill heimilt að hefja samkeppni við þann sem fyrir er, þá er samkeppnin frjáls. Hún er jafn frjáls þó að enginn sjái sér hag í að hefja hana. Maður sem vill efna til samkeppni á tilteknu sviði, hann á heimtingu á því að ríkið banni sér það ekki, Hann á hins vegar ekki heimtingu á því að reksturinn borgi sig hjá honum. Sama gildir um annað í viðskiptum. Réttur til frjálsa viðskipta felur einungis í sér að hið opinbera banni ekki viðskiptin. Hann merkir hins vegar ekki að menn eigi rétt til þess að viðskiptin fari fram. Menn eiga til dæmis heimtingu á því að ríkið banni þeim ekki að bjóða tiltekið verð fyrir tiltekna vöru. Þeir eiga hins vegar enga heimtingu á því að eigandi vörunnar kjósi að selja þeim hana.
Í fyrradag gaf „samkeppnisráð“ út það álit að Knattspyrnusambandi Íslands hefði verið beinlínis óheimilt að selja í einu lagi miða á tvo tiltekna landsleiki í fótbolta. Vefþjóðviljinn fjallaði nokkuð um málavexti þann 27. ágúst síðastliðinn og leyfir sér að vísa til þeirrar umfjöllunar hér. Þess vegna lætur Vefþjóðviljinn sér nægja að ítreka þá skoðun sína að Knattspyrnusambandið hafi einskis manns rétt brotið með þeim hætti sem það ákvað að hafa á sölu þessarar eignar sinnar, aðgöngumiðanna. Hinn nýfallni úrskurður samkeppnisráðs mætti hins vegar verða hugsandi þingmönnum enn eitt tilefnið til að endurskoða á ný hin ógeðfelldu samkeppnislög sem sett voru til höfuðs frjálsum viðskiptum fyrir sjö árum.
Hinir, sem fagna áliti samkeppnisráðs, geta svo velt fyrir sér hvort ekki sé þá víðar pottur brotinn. Af hverju má Knattspyrnusambandið ákveða að selja aðgang að báðum hálfleikjum knattspyrnuleiks í einu lagi? Hvað með þá sem vilja einungis sjá síðari hálfleikinn þar sem úrslitin ráðast, hvaða réttlæti er í því að þeir verði að kaupa sig inn á fyrri hálfleikinn? Og hvað með þá sem ekki komast á völlinn en vilja gerast áskrifendur að Sýn sem sýnir gjarnan fótboltaleiki? Af hverju þurfa þeir að kaupa hina dagskrána? Og þeir sem vilja kaupa íþróttablað Morgunblaðsins, af hverju þurfa þeir að borga áskrift að Lesbókinni? Og þeir sem vilja bara aðalblaðið, af hverju þurfa þeir að kaupa Myndasögur Moggans? Og þeir sem ganga í Neytendasamtökin til að styðja við bakið á Jóhannesi Gunnarssyni formanni, af hverju þurfa þeir að sæta því að félagsgjöld þeirra fari líka til að styðja við bakið á framkvæmdastjóra samtakanna, Jóhannesi Gunnarssyni?