Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra átti afar jákvætt innlegg í þjóðmálaumræðuna með ræðu sem hann flutti í fyrradag. Svo skrýtið sem það nú er, þá hefur varla nokkur stjórnmálamaður á síðustu árum talað um að lækka þurfi skatta á Íslandi, en í þessari ræðu sinni færði Árni þetta í tal. Hann sagði að lægri skattar á fyrirtæki gætu gefið Íslendingum sóknarfæri, en að nú séu skattar á fyrirtæki næst hæstir á Íslandi af Norðurlöndunum. Aðeins í Danmörku þurfi fyrirtæki að greiða hærri skatta. Þá taldi Árni að þar sem staða ríkissjóðs væri að styrkjast mundi það hugsanlega gefa þjóðinni „einstakt tækifæri til að nota afganginn á ríkissjóði, haldist hann næstu árin, til þess að lækka skatta.“ Þarna kemur Árni að mjög mikilvægu atriði, þ.e. hvernig eigi að nota afgang ríkissjóðs. Og hann virðist vera að komast að réttri niðurstöðu, þ.e. að lækka beri skatta.
Ráðherrann segir jafnframt að ef ESB muni samræma skattkerfi sitt, en sú umræða virðist ætla að komast á dagskrá innan sambandsins innan tíðar, þá muni það vera ávísun á skattahækkun innan þess. Þetta geti gefið Íslandi einstaka stöðu, því aðgangur þess að innri markaði sambandsins í gegnum EES-samninginn og lægri skattar á Íslandi skapi sóknarfæri fyrir það. Loks segir Árni að sér hafi þótt spennandi sú umræða sem af og til hafi skotið upp kollinum síðustu árin um einhvers konar „frísvæði“ á Íslandi.
Undir þetta má taka með Árna og næsta víst að ef slík sjónarmið verða ofan á innan ríkisstjórnarinnar er efnahagsmálum ágætlega borgið á Íslandi. Slík skattalækkun þýðir fleiri og öflugri fyrirtæki sem aftur þýða meiri atvinnu og betri laun.
Þegar minnst er á betri laun er ekki úr vegi að nefna annan skatt sem ráðherrar og óbreyttir þingmenn mættu að ósekju beita sér gegn og það er hinn svo kallaði „hátekjuskattur“. Hann er lagður á sæmilegar millitekjur og er því fólki þungbærastur sem um stundarsakir leggur á sig mikla vinnu til að koma þaki yfir höfuðið á sér og sínum. Fyrir rúmum áratug var tekið upp staðgreiðslukerfi skatta, sem hefur þýtt að menn hafa strax greitt þann tekjuskatt sem af þeim er heimtaður. Með „hátekjuskattsþrepinu“ er hins vegar horfið til hins gamla tíma þegar menn urðu að greiða skattinn sinn löngu síðar og lentu iðulega í erfiðleikum þegar kom að skuldadögum að greiða uppsafnaðan skattinn. Í þessu lendir fólk einnig nú vegna „hátekjuskattsins“. Hann er því bæði óþægilegur fyrir fólk af þessari ástæðu og ranglátur vegna þess að með honum er fólk að greiða nærri helming hverrar viðbótar krónu í skatt. Þegar litið er til bótakerfisins, barnabóta, vaxtabóta og þess háttar, er hlutfallið enn óhagstæðara. Þessi skattur, sem eingöngu byggir á öfundarsjónarmiðum félagshyggjumanna en ekki almennum tekjuöflunar- eða efnahagssjónarmiðum, ætti að fara hið allra fyrsta.
En hverjar skyldu þá líkurnar vera á að skoðanir Árna M. Mathiesen verði ofan á innan ríkisstjórnar og þings? Um það er vissulega erfitt að spá, en því miður verður að segjast eins og er að þegar núverandi fjármálaráðherra hefur verið inntur álits á því hvort skattalækkun komi til greina hefur hann jafnan borið það fyrir sig að hér sé svo mikið góðæri að engin leið sé að lækka skatta. Lækkun skatta er sko nefnilega svo mikill þensluvaldur að hans áliti að allt myndi stefna í óefni ef fólki og fyrirtækjum yrði leyft að halda eftir hærra hlutfalli af eigum sínum. Til að slá á þensluna telur ráðherrann nauðsynlegt að halda sköttunum einmitt eins og þeir eru. Mesta furða að þannig hafi hist á að hér sé nákvæmlega rétt skatthlutfall og að hvorki þurfi að hækka skatta né megi lækka þá. Það er í sjálfu sér mikil og sérstök gæfa þjóðarinnar.
Það er líka furðulegt þegar hugsað er nokkur ár aftur í tímann og rifjuð upp viðhorf manna þegar hér ríkti kreppa, að þá mátti ekki lækka skatta því ríkið hafði svo lítið milli handanna að ekkert svigrúm var til skattalækkunar. Ef hlustað er á slíkan málflutning gefur auga leið að skattar verða aldrei lækkaðir. Vonandi dregur úr þensluáhyggjum fjármálaráðherra, því erfitt getur reynst að koma skattalækkun í gegn þegar sá sem gegnir því embætti má ekki heyra á hana minnst. Ekki er gott að segja hvað aðrir sjálfstæðismenn munu gera, en þeim ætti þó flestum að lítast vel á þetta telji þeir sig standa fyrir hægri stefnu. Um hinn ríkisstjórnarflokkinn, Framsóknarflokkinn, er erfiðara að segja, því hann byggir ekki á mjög ákveðinni hugmyndafræði og virðist auk þess farinn að hafa furðu miklar áhyggjur af skoðanakönnunum í seinni tíð. Þó er alls ekki útilokað, ef til vill einmitt vegna skoðanakannana og þeirrar staðreyndar að skattalækkun er yfirleitt til vinsælda fallin, að Framsóknarflokkurinn sjái sér leik á borði og styðji slíka tillögu komi hún fram.
Litlu skiptir svo sem í bili hvað Samfylkingu og Vinstri grænum kann að þykja um skattalækkun, en um það þarf ekki að efast að báðir munu telja hugmyndina afleita. Össur Skarphéðinsson hefur ítrekað lagst gegn hugmyndum um lækkun skatta og Samfylkingin hafði meira að segja á stefnuskránni fyrir síðustu kosningar að hækka þá. Skoðun Vinstri grænna þarf út af fyrir sig ekki að ræða, þeir taka alltaf ranga afstöðu til skattamála og eru þess vegna í raun ágætur mælikvarði á hugmyndir sem tengjast sköttum. Árni M. Mathiesen hlýtur að vona að þeir leggist eindregið gegn hugmyndum hans.