Ör þróun tækni á heilbrigðissviði, dýrari læknisþjónusta, hlutfallsleg fækkun á vinnumarkaði og aukin skattbyrði þeirra sem yfirleitt borga skatta voru helstu ástæður þess að Samtök heilbrigðisstétta efndu til málþings um einkavæðingu á heilbrigðissviði á föstudaginn. Framsögumenn komu úr ýmsum áttum og vörpuðu ljósi á atriði sem vert er að hafa í huga þegar kemur að einkavæðingu á þessu sviði. Í tengslum við einkarekin sjúkratryggingakerfi benti Þorvarður Sæmundsson lögfræðingur hjá Sjóvá-Almennum á að slíkar tryggingar væru nú þegar til staðar svo sem þegar keyptar eru sjúkratryggingar þegar ákveðið er að leggjast til utanfara. Einnig bjóða tryggingafélögin upp á sjúkrahúsatryggingu til handa þeim sem falla utan almannatryggingakerfisins, svo sem ástatt er um þá sem hafa dvalið skemur en sex mánuði á Íslandi (útlendingar eða Íslendingar sem hafa haft lögheimili erlendis). Fáum koma á óvart slíkar tryggingar og trúlega eru þeir enn færri sem láta hjá líða að kaupa sér þær þegar við á. Þetta er ágætt að hafa í huga þegar fjallað er um sjúkratryggingakerfi því það er kerfi sem lang flestir taka nú þegar þátt í. Verkefnið framundan er hins vegar að yfirfæra það á fleiri þætti. Benti Þorvarður til að mynda á að erlendis væru umönnunartryggingar þekkt fyrirbæri sem létti undir með öldruðum og lasburða.
Það er algengur hræðsluáróður (að minnsta kosti er áróðrinum ætlað að hræða en óvíst er hvort sá tilgangur náist) að vísa til bandarískrar heilbrigðisþjónustu þegar ráðist er gegn einkavæðingarhugmyndum. Er þá gjarnan vísað til óöryggisins sem fátæklingar eru taldir búa við í Bandaríkjunum. Því er einnig haldið fram að á Norðurlöndum standi öll þjónusta öllum til boða. En eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson benti á í erindi sínu á áðurnefndu málþingi er slíkur samanburður á kerfum tveggja þjóða ansi hæpinn. Það er nefnilega ekki nóg að bera svona sýnilega hluti saman heldur þarf líka að huga að ýmsum ósýnilegum þáttum sem mynda kerfið. Þar á meðal má nefna hinn öra vöxt þekkingar sem tvímælalaust á sér stað í Bandaríkjunum öðrum ríkjum fremur. Slík þróun kemur öllum til góða, ekki síst fátæklingum. Einnig þarf að líta til þess sveigjanleika sem ríkir að vissu marki í Bandaríkjunum. Það kemur auðvitað sjúkum til góða að geta valið um meðferðarúrræði og stofnanir.
Reynslan af einkavæðingu og einkaframtaki er góð. Margir foreldar fara þannig með börn sín til fjölskyldutannlæknisins þó að í skólunum starfi sérstakir skólatannlæknar sem sinni börnunum frítt. Þórir Schöth formaður tannlæknafélagsins benti einmitt á góð þjónusta væri mörgum mikilvæg. Og það er einmitt lóðið. Því skyldu þá menn ekki mega leita þangað sem þeir sjá hag sínum best borgið? Er ekki einmitt hægt að sjá fyrir sér tannlæknakerfið á öðrum sviðum? Menn skyldu því líta til sögunnar þegar kostir einkavæðingar eru metnir. Einkarekstur er líklegri til að bjóða þá þjónustu sem eftirspurn er eftir. Það sama gildir um heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu hvað þetta varðar. Það er takmarkað fé til umráða og ef hægt er að nýta það betur og bæta þjónustuna er sjálfsagt að gera það. Það ætti enginn að verða verr staddur eftir einkavæðingu en sumir verða örugglega betur staddir. Hvað er rangt við það?
Og svo talaði Ögmundur Jónasson líka á málþinginu. Hann sagðist ekkert skilja í þessum biðlistum í heilbrigðiskerfinu. Hann er því eðli málsins samkvæmt andvígur öllum breytingum.