Heildarskuldir íslenskra sveitarfélaga námu í árslok 1998 rúmlega 47 milljörðum króna en peningaleg eign þeirra á sama tíma nam rúmlega 19 milljörðum. Í fyrra greiddu sveitarfélögin svo 2,3 milljarða króna í fjármagnsgjöld en höfðu tæpar 600 milljónir í fjármagnstekjur. Sveitarfélögin standa sem sagt ekki sérstaklega vel. Sveitarstjórnarmenn virðast einkum sjá það ráð við þessum vanda sínum, að fara fram á auknar tekjur frá skattgreiðendum. Eða kannast einhver við þá sveitarstjórn sem hefur boðað stórfelldan niðurskurð útgjalda; að sveitarfélagið muni aðeins sinna nauðsynlegustu hlutum en láta öll gæluverkefnin eiga sig?
Á undanförnum árum hafa nokkur lögbundin verkefni færst frá ríki til sveitarfélaganna og tekjur þeirra hafa einnig verið auknar. En það er ekki eins og það séu þessi lögbundnu verkefni ein sem séu að sliga sveitarfélögin og þar með útsvarsgreiðendur um allt land. Úti um allt má sjá sveitarfélög þenja út starfsemi sína. Má þar til dæmis nefna ört vaxandi eyðslu til „íþróttamannvirkja“ og virðist ekkert lát á hugmyndum um yfirbyggða velli og sundlaugar sem endilega þarf að reisa á kostnað almennings. Félagsheimili spretta upp hér og hvar og á dögunum var Reykjavíkurborg meira að segja að ákveða að setja milljónir í ný æfingasvæði fyrir tiltekin íþróttafélög í borginni. Allt eru þetta verkefni sem sveitarfélög eiga að láta öðrum eftir. Hið opinbera á að lækka álögur á íbúa sína og láta reyna á það hvort þeir vilja í raun verja peningum sínum á þennan hátt.
Í gær var sagt frá því að nú eigi að reisa „glæsilega reiðhöll“ á Sauðárkróki. Og þar var fjár til byggingarinnar meðal annars safnað með því að stofna hlutafélag um bygginguna og selja heimamönnum bréf. Ljómandi gott, ekkert að því. Í fréttum sagði að Skagfirðingar „hefðu tekið mjög myndarlega á málum“ í þessari söfnun og mikið fé komið inn. En svo var bætt við að „einnig væri vonast eftir góðum stuðningi frá Sveitarfélaginu Skagafirði við þetta framtak.“ Og það er ekki eins gott.
Það er semsagt búið að athuga hvað Skagfirðingar eru reiðubúnir að leggja í mannvirkið af fúsum og frjálsum vilja. Og þegar það nægir ekki, þá vilja menn taka afganginn af þeim með valdi.