„Allt áhugafólk um náttúruvernd er hvatt til að mæta. Nýir félagar velkomnir“, sagði í fréttatilkynningu frá „Náttúruverndarsamtökum Austurlands“ fyrir aðalfund félagsins. Þetta var að vísu fyrir aðalfundinn í fyrra og nú hafa menn brennt sig á því að nýir félagsmenn mæti á fund hjá félaginu og stjórn þess því snarlega skipt um skoðun. Umhverfisverndarsinnar á Austurlandi telja það nú afbökun á lýðræðinu að nýir félagsmenn mæti á fund. Þeir eru ekki velkomnir lengur og ekki hvattir til að mæta heldur þvert á móti kvartað undan þeim.
Umhverfisverndarsinnar á Austurlandi hafa amast við því að hinir nýju félagsmenn hafi beitt óhefðbundnum aðferðum við að ná sínu fram. Umhverfisverndarsinnar á Austurlandi lokuðu reyndar brú með vírum og jeppa ekki alls fyrir löngu til að koma í veg fyrir að óæskilegir aðilar kæmust þar um, svona til að leggja áherslu á málstað sinn. Umhverfisverndarsinnar um allan heim eru þekktir fyrir hvers kyns ólæti til að vekja athygli á málstað sínum. Skrílslætin við fundi WTO að undanförnu eru rakið dæmi um það. Viðskiptavinir íslenskra fyrirtækja erlendis hafa einnig orðið fyrir barðinu á leiguþýi umhverfisverndarsamtaka vegna hvalveiða Íslendinga.
Fundarsókn á aðalfundi „Náttúruverndarsamtaka Austurlands“ leiddi í ljós að samtökin hafa aðeins verið annað nafn yfir Hjörleif Guttormsson. Hafa menn áhyggjur af lýðræði innan slíkra samtaka? „Vér álítum, að rétt sé og sjálfsagt að leyfa ekki umræður né gefa fólki kost á að velja um neitt nema á grundvelli sósíalismans.“