Í leiðara Morgunblaðsins í gær var ritað um það mikla „hatur“ sem andstæðingar Clintons forseta Bandaríkjanna hafa lagt á hann. Um ástæður þessa meinta haturs sagði svo í leiðaranum: „Ástæðan fyrir þessari óvenjulegu hörku andstæðinga forsetahjónanna er sú staðreynd, að þau hafa barist fyrir róttækum breytingum á bandarísku þjóðfélagi, breytingum sem hafa miðað að því að bæta hag hinna ver settu, þótt það yrði að einhverju leyti á kostnað hinna bezt settu.“ Þetta er ekki útskýrt frekar og engin dæmi nefnd um það hvernig Clinton hjónin hafa bætt hag hinna ver settu. Þó blasir við að gott efnahagsástand með minnkandi atvinnuleysi er afar mikilvægt fyrir það fólk sem á erfiðast uppdráttar á vinnumarkaði. En það er líklega ekki það sem leiðarahöfundurinn á við enda er vafasamt að þakka Clinton hjónunum sérstaklega fyrir gott efnahagsástand. Þau eins og aðrir Bandaríkjamenn njóta góðs af auknu frelsi í heimsviðskiptum eftir að Kalda stríðinu lauk og ekki síst þess að skattar voru lækkaðir í forsetatíð Ronalds Reagans en við það færðist mikið fjör í bandarískt efnahagslíf.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins bætti svo við: „Sterkur stuðningur Clintonhjónanna við Gore, forsetaefni demókrata, byggist á trú þeirra á því að hann muni halda áfram að berjast fyrir þessum markmiðum.“ Þetta er sérkennileg fullyrðing. Forsetaframbjóðandi repúblíkana heldur því einnig fram að hann vilji bæta hag hinna verst settu og ekki styðja Clinton hjónin hann. Raunar halda allflestir frambjóðendur í stjórnmálum þessu fram. Frambjóðendur leggja hins vegar mismikla áherslu á að bjóða félagsmálapakka á vegum hins opinbera. Ýmsir telja vænlegra að bæta hag hinna verst settu með blómlegu efnahagslífi. Það segir ekki að þeir hafi minni áhuga á breytingum sem miða að því að bæta hag hinna ver settu. Reagan forseti hafði ekki mikla trú á félagsmálapökkum og mælti raunar gegn þeim. Hann hefur það hins vegar á afrekaskrá sinni að hagur (tekjur) hinna lakast settu hækkuðu í forsetatíð hans – alveg eins og hinna betur settu. Á næstu árum áður en hann tók við, þegar trú á félagsmálapakka var meiri, versnuðu hins vegar kjör allra, þar á meðal hinna verst settu.
Fjölmiðlafólk virðist stundum ranglega ætla að þeir sem lofa mestum ríkisútgjöldum til ákveðinna mála hljóti að vera helstu baráttumennirnir fyrir þessum málum. Ætli íslenskur landbúnaður, svo dæmi sé tekið, stæði betur eða verr í dag ef hann hefði ekki notið ríkistyrkja? Þeir sem hafa amast við ríkisstyrkjum til landbúnaðar hafa jafnan verið nefndir andstæðingar landbúnaðarins.
Þeir sem verða í London 12. september næstkomandi geta sótt samkomu vegna útgáfu Institute of Economic Affairs á bókinni Overfishing: The Icelandic Solution eftir Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor. Í bókinni rekur Hannes þróun kvótakerfisins í íslenskum sjávarútvegi en litið er til Íslands í vaxandi mæli sem fyrirmyndar í þessum málum. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra og Þorsteinn Pálsson sendiherra og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra munu ávarpa samkomuna ásamt bókarhöfundi.