Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um álögur á landsmenn í ljósi álagningar þeirrar sem nú liggur fyrir. Í leiðara blaðsins segir að „á sama tíma og tekjuskattsstofn einstaklinga hækkaði um liðlega 10% þá hækkuðu álagðir tekjuskattar einstaklinga um rúm 15% og útsvar hækkar um rúm 13%. Það er með öðrum orðum ljóst að launþegar greiða nú stærri hluta launa sinna í tekjuskatt og útsvar en áður. Mikil hækkun sérstaks tekjuskatts og fjármagnstekjuskatts er sérstaklega sláandi, en sérstakur tekjuskattur hækkar um 25% á milli ára, og fjármagnstekjuskattur hækkar um 70% á milli ára.“
Fyrir þá sem telja að stefna Sjálfstæðisflokksins sé að lækka skatta eru þetta vissulega umhugsunarverðar tölur og varaformanni flokksins sem jafnframt er fjármálaráðherra ættu þær að vera áhyggjuefni. Svo er þó ekki að sjá. Fyrir nokkru var fjármálaráðherra til að mynda í Kastljósinu í Ríkissjónvarpinu og var þar spurður út í skattamál. Hann gaf engar vonir um skattalækkun og aftók skattahækkanir ekki meira en svo að hann sagði aðeins að skattar yrðu ekki hækkaðir mikið og ekki hækkaðir almennt.
Þannig viðhorf frá fjármálaráðherra eru ekki einmitt það sem þarf. Fjármálaráðherra ætti nú að vinna að því af krafti að lækka skatta enda erfitt að ímynda sér betra tækifæri en þegar ríkiskassinn yfirfullur af skattfé landsmanna. Vonandi ráða þessi viðhorf ekki við yfirstandandi fjárlagagerð, því þá er ekki von á góðu. Á fjárlögunum nú verður að sjást ríflegur niðurskurður en ekki sú aukning sem verið hefur hingað til. Fjármálaráherra gerði afar stór mistök í vor þegar hann beitti sér fyrir samþykkt hins rándýra fæðingarorlofsfrumvarps. Athyglisvert verður fyrir skattgreiðendur að fylgjast með því í haust hvort hann hyggst halda áfram á þeirri braut.