Heimdellingar sátu vörð við álagningarskrár í húsakynnum skattstjóra í gær og bentu með því á hversu ógeðfelldur sá ósiður er að „opna skattskrár“ og leyfa hverjum sem vill að lesa það sem þar stendur. Allt of oft gerist það að réttur manna er fótum troðinn án þess að nokkur hreyfi andmælum og var þessi mótmælaseta því bæði skemmtileg og mikilvæg tilbreyting. Rökstuðningur þeirra sem hleypa vilja hverjum sem er í persónuupplýsingarnar í skattframtalinu er sá að með þessu móti verði komið í veg fyrir „skattsvik“. Þetta stenst þó ekki, því reynslan sýnir að enginn er gómaður vegna þess að hnýsnir menn hafi farið með nefið ofan í þessi einkamál fólks. Eini sýnilegi tilgangurinn með þessari opnun skránna er að svala forvitni nokkurra manna og útvega fjölmiðlum þægilegt umfjöllunarefni. Hvorugt dugar sem rök fyrir að brjóta á réttindum einstaklinganna.
Það má taka dæmi sem mönnum þykja ef til vill svakaleg. Hvað ef það væru ekki skattskrár sem lægju opnar heldur banka- og krítarkortareikningar? Þætti einhverjum í lagi að í nokkra daga á ári fengju forvitnir menn svalað þorsta sínum með því að gramsa í bankareikningum annarra?
Eða væri eðlilegt að gefin væru út fyrirmæli um það að á tilteknum tíma ársins gætu menn vaðið inn á heimili annarra og litið þar inn í skápa í leit að beinagrindum? Hver veit nema slík leit gæti skilað töluverðum árangri. Ef til vill kæmi í ljós að einhverjir fela umtalsverð verðmæti á heimilum sínum og hafa aldrei greitt af þeim skatt. Svo hafa sumir jafnvel eitt og annað á samviskunni sem lesa mætti um í dagbókum þeirra. Eða bara einhverjar furðulegar vangaveltur sem samkvæmt kenningum um að persónuréttindi séu aukaatriði ættu líklega erindi við almenning. Í einni gæti til dæmis staðið: „Kæra dagbók. Í dag tók ég við stöðu minni á ný. Óskaplega var ég flottur og fínn; ég hreinlega bar af hinu liðinu. Ég heyrði einhvern útlending pískra að hann tryði því ekki að ég væri bara einn maður, hann sagðist viss um að ég væri tvíburi því enginn gæti alltaf verið svona smart. Á leiðinni heim aftur fann ég fyrir einhverri óþægilegri tómleikatilfinningu, en hugsaði með mér að það væri eðlilegt, því það er jú einmanalegt á toppnum. Eftir að hafa gengið um berfættur fyrir utan heima í stórkostlegu íslensku grasinu og andað að mér besta lofti í heimi fór ég agndofa inn aftur til að rita þessar ódauðlegu íslensku línur.“