Í helgarsproki fyrir viku var vikið að grein sem Ludwig von Mises ritaði í tímaritið The Freeman fyrir 45 árum þar sem hann hafnaði því að til væri einhver „þriðja leið“ á milli kapitalisma og sósialisma. Mises benti m.a. á að í markaðskerfinu væri það neytandinn sem hefði valdið. Mises segir því: „Vald neytandans felst í því að hann ræður því hverjum hann felur framleiðslu á því sem hann þarfnast og þar með velur hann þann sem framleiðir vöruna á hagkvæmastan hátt. Þetta veldur ójöfnum tekjum einstaklinganna. Ef menn vilja jafna þessar tekjur blasir við að afnema markaðshagkerfið og innleiða sósialisma. (Því verður ekki svarað hér hvort sósialisminn myndi virkilega hafa slíkan jöfnuð í för með sér.) En miðjumoðararnir segjast ekki vilja jafna tekjur manna algjörlega heldur aðeins að hluta. Þeir líta á ójafnar tekjur sem óværu. Þeir geta hins vegar ekki sagt okkur hversu mikill munur megi vera á tekjum manna. Þvert á móti líta þeir á tekjumuninn eins og eitur, því minni sem hann er því betra. Þeir virðast því ekki draga nein mörk í viðleitni sinni til tekjujöfnunar enda væri það ekki rökrétt ef menn telja tekjumuninn óæskilegan á annað borð. Það hvort menn hafa náð að jafna tekjur fólks nægilega er háð persónulegu mati og smekk hvers og eins breytilegt frá einum tíma til annars.“
„Svo lengi sem nokkur tekjumunur verður til staðar munu alltaf hljóma öfundarraddir sem krefjast frekari jöfnunar. Engin rök hrína á þeim sem halda því fram að tekjumunur sé í sjálfu sér af hinu illa. Þeir munu ekki láta deigan síga fyrr en eignir og tekjur allra hafa verið flattar út í sömu stærð.“
Og Mises var heldur svartsýnn á framhaldið fyrir 45 árum og sagði í lok greinarinnar: „Við skulum ekki stinga höfðinu í sandinn. Sú skattastefna sem menn hafa fylgt að undanförnu stefnir að algjörri jöfnun á auði og tekjum og þar af leiðandi til sósíalisma. Við snúum þessari þróun ekki við nema viðurkenna að hagnaður og tap og tekjumunur sem af því hlýst gegna mikilvægu hlutverki í markaðshagkerfinu. Við verðum að átta okkur á því að velmegun einstakra framleiðenda er afleiðing af því að hagur okkar sjálfra hefur batnað. Við verðum að viðurkenna að það er ekki slæmt þótt stórfyrirtæki spretti upp heldur sé það eðlileg afleiðing af því að við njótum þess sem nefnt hefur verið „American way of life““
Ef til vill fengu þessi sjónarmið sem Mises getur um í lokaorðum greinarinnar ekki víðtækan stuðning á Vesturlöndum fyrr á níunda áratugnum (sem klisjumenni hafa auðvitað kennt við „græðgi“) en þá komust til valda stjórnmálamenn sem höfðu skilning á því að eins gróði er yfirleitt annars gróði, enda fara viðskipti ekki fram án þess að báðir aðilar telji sig betur setta en áður. Þessir stjórnmálamenn áttuðu sig einnig á því að sívaxandi og stigvaxandi skattheimta dregur úr athafnagleði manna og þótt þeim hafi gengið misjafnlega að lækka skattana má að minnsta kosti þakka fyrir að skattahækkanir héldu ekki áfram af sama offorsi og áður.
Þessi grein eftir Mises sem hér hefur verið vitnað til er þó ekki síst dæmigerð fyrir verk hans sjálfs. Þau standast tímans tönn.