Helgarsprokið 16. júlí 2000

198. tbl. 4. árg.

Í góðæri undanfarinna ára hefur heldur dregið úr fullyrðingum um að lífkjörum sé skipt á óeðlilegan hátt. Það er líklega minni hljómgrunnur fyrir slíkan málflutning þegar vöxtur er í efnahagslífinu. Þá var einnig sýnt fram á það að fullyrðingar um að hér sé meiri „misskipting“ en í öðrum löndum voru rangar og leitun er að landi þar sem tekjur dreifast með jafnari hætti. En það er viðbúið að þessi umræða blossi upp á nýjan leik enda virðist alltaf vera til fólk sem telur einhverja verr setta en áður þótt hagur allra hafi batnað en bara mismikið. Árþúsundum saman hafa menn reynt að spila á öfundina og aðrir reynt að svara öfundarkórnum. Ludwig von Mises ritaði t.d. grein í The Freeman (nú Ideas on Liberty) fyrir 45 árum þar sem hann fjallaði um þessi mál undir yfirskriftinni „Inequality of Wealth and Incomes“.

Í greininni segir m.a.: „Að mati lýðskrumara er ójöfn tekjuskipting verri en orð fá lýst. Réttlætið felst að þeirra mati í algjörlega jafnri tekjuskiptingu. Þess vegna þykir þeim eðlilegt að gera eignir hinna efnameiri upptækar og færa þeim sem eiga minna. Þeir sem boða þessa stefnu taka ekkert tillit til þess að hún kunni að leiða til þess að samanlagður auður manna minnki. Jafnvel þótt svo væri ekki þá ýkja menn það hve mikið má bæta hag þeirra sem minnst hafa með þessari aðferð. Neysla ríka fólksins er aðeins brot af heildarneyslunni. Ríka fólkið eyðir hlutfallslega minna af tekjum sínum en aðrir. Stærri hluti tekna þeirra fer í sparnað eða fjárfestingar. Þess vegna er þetta fólk ríkt. Ef þessi sparnaður sem ríka fólkið notar til að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum er tekinn og notaður í útgjöld hins opinbera hægir á hagvexti. Þannig hægir á efnahagslegum framförum, tækniframförum og lífskjör batna hægar en ella.“

Marx
Marx
Engels
Engels

Og Mises hélt áfram: „Þegar Marx og Engels mæltu með „hratt stigvaxandi tekjuskatti“ og „afnámi á öllum rétti til erfða“ í Kommúnistaávarpinu sögðust þeir vilja „ná öllum eignum borgarastéttarinnar í áföngum“ með það að markmiði að sósíalismi leysti kapítalsima af hólmi. Þeir gerðu sér þannig grein fyrir afleiðingunum af þessum aðgerðum. Þeir voru samkvæmir sjálfum sér og stefndu að því umyrðalaust að ryðja kapítalismanum úr vegi fyrir sósíalismann. Þeir lýstu því jafnframt yfir að þessar aðgerðir væru „efnahagslega óverjandi“ en engu að síður nauðsynlegar til að umbylta þjóðfélaginu og koma á sósíalisma.
Í dag segja menn hins vegar að þeir vilji viðhalda markaðshagkerfinu og viðskiptafrelsinu en vilja engu að síður fara þær leiðir sem Marx og Engels lýstu „efnahagslega óverjandi“. Þessir miðjumoðarar eru annað hvort hræsnarar sem vilja innleiða sósialisma án þess að viðurkenna það eða vita ekki hvað þeir eru að tala um. Stigvaxandi tekjuskattur og vaxandi eignarskattur samrýmast ekki markaðshagkerfinu.“

Mises segir að þeir sem boði miðjumoðið telji að eigendur fyrirtækja muni ekki láta það hafa áhrif á sig þótt hagnaður fyrirtækjanna sé gerður upptækur að stórum hluta og færður öðrum. Hvers vegna ætti forstjórinn að láta það hafa áhrif á gæði framleiðslunnar þótt aðrir fái hluta af hagnaðinum? Hann hlýtur þrátt fyrir allt að hafa metnað til að bæta framleiðsluna, segir miðjumoðið. Um þetta segir Mises: „Þessi röksemdafærsla fer fyrir ofan garð og neðan. Hegðun forstjórans skiptir minna máli en vald neytandans. Gefum okkur að eigendur fyrirtækja láti það ekki á sig fá þótt þeir njóti þess ekki að veita góða þjónustu. Þeir munu áfram veita þá þjónustu sem þeir telja að viðskiptavinurinn vilji. En þá er það ekki neytandinn sem ákveður hvað hann fær. Þeir verða að gera sér að góðu það sem framleiðendur telja að sé best fyrir neytendur. Neytendur munu ekki lengur hafa það vald yfir framleiðendum sem þeir hafa í dag.“ Mises nefnir að ef allur hagnaður Henrys Fords hefði verið gerður upptækur hefðu verksmiðjur hans aldrei framleitt bíla handa alþýðufólki. Sama hefði átt við um aðrar greinar. Án hagnaðar hefðu ný fyrirtæki ekki sprottið upp í sama mæli.
Og svo segir Mises áfram: „Hagnaður og tap eru skilaboð neytenda til framleiðenda um hvað þeir vilja að sé framleitt. Framleiðandinn hefur ekki annað til að fara eftir en það sem hann fær sjálfur í vasann. Ef hagnaður er gerður upptækur fær hann ekki þessi skilaboð frá neytendum. Þar með hefur stýrinu á markaðskerfinu verið kippt úr sambandi. Það verður að gagnslausri óreiðu. Fólk getur aðeins keypt það sem hefur verið framleitt. Ein stærsta spurning þessarar aldar hefur einmitt verið hver eigi að ákveða hvað er framleitt. Fólkið eða ríkið? Neytandinn sjálfur eða forsjárhyggjuríkið? Ef við viljum að neytandinn hafi valdið veljum við markaðshagkerfið. Ef við viljum að ríkið sjái um þetta höfum við sósialisma. Það er engin þriðja leið.“

Í næsta helgarsproki verður sagt frekar frá þessari sígildu grein Mises.