Laugardagur 15. júlí 2000

197. tbl. 4. árg.

Tvennt hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið. Annars vegar hefur mikið verið sagt frá sveiflum á gjaldeyrismarkaði þar sem gengi íslensku krónunnar hefur sveiflast til og frá. Hins vegar hefur mikið borið á fréttum af verkfalli atvinnubifreiðarstjóra sem nú mun ganga mjög nærri þeim fyrirtækjum sem fyrir því verða. Er óttast að verkfallið kunni að ríða ýmsum þeirra að fullu.

Ásgeir Jakobsson - Óskars saga Halldórssonar, Íslandsbersi
Ásgeir Jakobsson – Óskars saga Halldórssonar, Íslandsbersi

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gengi gjaldmiðla og verkföll hafa áhrif á líf í landinu. En gengismálin eru nú með öðrum hætti en áður var, þar sem gengi krónunnar er nú frjálst en ekki háð einföldum ákvörðunum hins opinbera. Er það mikill munur frá því sem áður var. Í hinu fróðlega riti sínu um sögu útgerðarmannsins og þjóðsagnapersónunnar Óskars Halldórssonar fjallar Ásgeir Jakobsson heitinn meðal annars um kreppuárin og hvernig þá var búið að atvinnulífinu. Ásgeir segir þar:

Kreppuárin hafa verið kennd við Framsóknarflokkinn, og kölluð framsóknaröld. Margt var umdeilanlegt í stjórnarháttum, en það er nú svo á hverjum tíma. Sjálfsagt er það rétt skýring, að röng stjórnarstefna hafi lengt fyrir okkur Íslendingum Krepputímann og það gert hann verri en þurfti að vera með því að láta sjávarútveginn drabbast niður undir rangri gengisskráningu og hömlum á stækkun flotans, sem dróst saman í gamla togara og smábáta, og fiskiflotinn lá bundinn langtímum saman vegna fjárhagsörðugleika. Gjaldeyrir, sem sjávarútvegurinn aflaði, var tekinn af honum á of lágu verði og dreift um sveitirnar. Og í viðskiptalífinu var Framsóknarflokkurinn að skipta um rekstrarkerfi, úr einstaklingsrekstri í samvinnurekstur, og Alþýðuflokkurinn að berjast fyrir ríkisrekstri. Kerfisbreytingar í viðskiptalífi þjóða reynast dýrar.

Það, sem sagan hlýtur að dæma Framsóknarflokkinn fyrir, er gerræðislegt stjórnarfar. Með Jónas Jónsson frá Hriflu í fararbroddi hófst „nótt hinna löngu hnífa“, sem skáru menn um allt þjóðfélagið. Einstaklingar í rekstri voru lagðir að velli og samvinnufélög og kaupfélög reist á valkestinum. Stjórnvöld komu fram fyrir sínum mönnum , og þótt stjórnarstefnan sé umdeilanleg, sem að framan segir, er það ekki umdeilanlegt, að Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn gengu berserksgang í að afhöfða pólitíska andstæðinga í rekstri, og er það vel skiljanlegt, þar sem þessir flokkar höfðu báðir breytt rekstrarform á stefnuskrá sinni. En auðvitað var innræti ráðamanna þáttur í gerðum þeirra og tilgangurinn virtist stundum helga meðalið.“

Og á þessum árum voru það ekki einungis opinberar ákvarðanir sem reyndust sjávarútveginum þungar í skauti. Ásgeir Jakobsson heldur áfram: „Þjarmað var ótæpilega að getulítilli útgerðinni með kaupkröfum og verkföllum, ekki sízt eftir að kommúnistar náðu miklum tökum á verkalýðshreyfingunni og hið langæja kapphlaup hófst með Alþýðuflokksmönnum og kommúnistum, hvorir gættu betur hagsmuna verkalýðsins. Það, sem gleymast vildi í þeirri baráttu, var að forsendan fyrir atvinnu var að fyrirtækin héldust gangandi og fyrir háu kaupgjaldi, var að fyrirtækin gætu borgað.“