Föstudagur 7. júlí 2000

189. tbl. 4. árg.

Vef-Þjóðviljinn sagði á dögunum frá bæklingi frá Prentsmiðjunni Odda hf. en í honum er bent á að nýr pappír er unninn úr nytjaskógum þar sem fleiri trjám er plantað en höggvin eru og endurunninn pappír er ekki eins umhverfisvænn og oft er gefið í skyn. Tveir öfgafullir umhverfisverndarsinnar rituðu grein í Morgunblaðið í fyrradag og andmæltu þeim sjónarmiðum sem kynnt eru í bæklingi Odda. Báðir hafa þessir öfgamenn atvinnu af því að telja fólki trú um að maðurinn sé óværa á jarðarkroppnum; Stefán Gíslason er verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 og Tryggvi Felixsson er framkvæmdastjóri Landverndar. Bæði Staðardagskrá 21 og Landvernd leggjast þessa dagana á sveitarfélög um land allt með óskir um fjárframlög í trúboð sitt.

Í greininni segja þeir félagar m.a.: „Trén sem felld eru til pappírsvinnslu eru fjölmargir ólíkir einstaklingar af nokkrum mismunandi tegundum. Trén sem plantað er í staðinn eru einræktaðir einstaklingar af einni eða örfáum tegundum.“ Hér eru tré ekki aðeins persónugerð og sett á stall með manninum heldur blandast einhvers konar kynþáttahyggja í málið! Stefán og Tryggvi hafa jafnframt miklar áhyggjur af því að pappírsframleiðsla og útivist fari ekki saman. Í Vef-Þjóðviljanum fyrir nokkru var sagt frá umsvifum International Paper með þessum orðum: „International Paper (IP) er eitt stærsta pappírsframleiðslufyrirtæki Bandaríkjanna. Fyrirtækið á m.a. 1,2 milljónir ekra lands í Texas, Louisiana og Arkansas sem er hráefnabúr fyrirtækisins. Skógarnir þar eru nýttir til pappírsframleiðslu. En fyrirtækið hefur einnig önnur not fyrir landið. Frá 1982 hefur IP selt útivistarfólki aðgang að landinu til skotveiða, fiskveiða og annarrar útiveru. IP leigir m.a. veiðifélögum ákveðin svæði til langs tíma og er það þá skylda félaganna að gæta þess að landinu og gæðum þess sé ekki spillt með ógætilegri umferð, rusli, íkveikjum eða veiðiþjófnaði. Í staðinn geta félögin selt veiðimönnum leyfi til að veiða fisk, dádýr, kanínur o.s.frv. Veiðifélögin sjá einnig um að skrá veiðina og fylgjast með að ekki sé gengið nærri veiðistofnum. Reynsla IP af þessu samstarfi í miðsuðurríkjunum leiddi til þess að fleiri svæði sem fyrirtækið á voru einnig leigð útivistarfélögum. Nú skapa tveir þriðju af 6 milljónum ekra fyrirtækisins um öll Bandaríkin því tekjur af útivistarfólki.“ Já, svo skelfilegur getur pappírsiðnaðurinn verið fyrir útivistarfólk.

Tryggvi og Stefán fullyrða einnig að endurunninn pappír sé umhverfisvænni en nýr. „Framleiðsla á nýjum pappír útheimtir meiri orku og meira vatn en framleiðsla á endurunnum pappír“, segja þeir. Hvernig stendur þá á því að endurunninn pappír er dýrari en sambærilegur nýr pappír ef svo litla orku þarf til framleiðslu á honum? Í umhverfistrúarhita sínum virðast þeir félagar algjörlega líta framhjá því að endurvinnsla kallar á orkufreka söfnun, flokkun og flutninga á notuðum pappír. Við það bætist svo efnameðferð og orkunotkun í sjálfri endurvinnslu pappírsins.