Margt áhugavert hefur verið ritað um Evrópumótið í knattspyrnu sem fram fer þessa dagana. Þar eru mörg álitaefnin. Til dæmis velti Björn Þorláksson upp áleitinni spurningu í Degi-Tímanum í gær og sagði: „Hvað þætti landsmönnum ef Sýn tækist að sölsa undir sig útsendingarréttinn á næsta EM 2000? Þá sætu landsmenn ekki við sama borð lengur. Vert er að þakka Ingólfi Hannessyni, útvarpsstjóra og öllum hinum fyrir að tryggja allri þjóðinni aðgang að EM 2000, enn eina ferðina.“ Vef-Þjóðviljinn hefur lausn á þessu erfiða vandamáli Björns Þorlákssonar. Ef Björn tekur EM 2000 upp á myndband núna getur hann horft á EM 2000 þegar EM 2000 verður sýnt enn eina ferðina og gildir þá einu á hvaða rás næsta EM 2000 verður sýnt enn eina ferðina. Og ef Björn tekur EM 2000 ekki upp getur hann leigt Groundhog Day og horft á hana aftur og aftur og …
Í sjónvarpsfréttum í gærkveldi var sagt frá því að faðir Elíans hins kúbverska hefði fengið (náðarsamlegast) leyfi hjá yfirvöldum á Kúbu til að fara til Bandaríkjanna og sækja son sinn. Þetta las fréttamaðurinn eins og ekkert væri eðlilegra en að menn þurfi leyfi yfirvalda til að ferðast frá heimalandi sínu. Þannig eru fréttir af Kúbu raunar yfirleitt, engar athugasemdir eru gerðar við stjórnarfarið og yfirleitt látið eins og ríkisstjórn Castrós á Kúbu sé annað en glæpaflokkur. Hún á sér jafnvel „talsmann“ hér á landi í líki Margrétar Frímannsdóttur formanns Alþýðubandalagsins.
Bandaríkin hafa talið réttu aðferðina til að bæta ástandið á Kúbu vera þá að setja viðskiptabann á eyjuna. Þessi stefna er nú á undanhaldi og hefur bandaríska fulltrúadeildin samþykkt að slaka á banninu. Óskandi er að svo verði gert sem fyrst, enda gerir bann sem þetta lítið gagn í baráttu við einræðisherra. Ráðið gegn þeim er frekar að eiga viðskipti við almenning í landinu þannig að hann verði síður háður stjórnvöldum og geti risið gegn þeim.