Mánudagur 26. júní 2000

178. tbl. 4. árg.

Síra Bjarni Jónsson vígslubiskup var prestur við dómkirkjuna í Reykjavík frá 1910 til 1951 og vann um sína daga fleiri prestsverk en nokkur annar Íslendingur fyrr eða síðar. Sr. Bjarni var meðal annars kunnur fyrir ræður sínar og orðalag sem hvort tveggja þótti ólíkt annarra presta. Yfir látnum manni, þjófóttum með afbrigðum, mælti hann grafalvarlegur: „Meðan aðrir sváfu, þá vakti hann. Þess sem aðrir söknuðu, það fundu þeir hjá honum“, og þótti söfnuðinum þá sem bæði hinn látni og viðskiptavinir hans mættu vel við una.

Við annað tækifæri gekk sr. Bjarni úr dómkirkjunni að lokinni messu, og varð þá fyrir því að fugl flaug yfir og dritaði á hann. Prestur nam þegar staðar, spennti greipar, og mælti hægum rómi: „Ég þakka þér Drottinn, að beljurnar hafa ekki vængi“. Þá má þess geta í sambandi við fleyg orð prestsins, að margir hafa eftir honum þau orð að á kjördegi beri hverjum manni að merkja við D og sé það fyrir Drottinn. Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort það sé réttilega eftir honum haft, né hversu oft sonardóttir hans, Guðrún Ágústsdóttir ræðismannsfrú, hefur farið að þeim ráðleggingum. Að minnsta kosti hafa ýmsir vinstri menn gjarnan spurt hvort ekki geri sama gagn að merkja við G fyrir Guð.

Ekkert af þessu kemur þjóðmálum dagsins við. Það rifjaðist bara upp fyrir Vefþjóðviljanum að í dag  eru níutíu ár liðin frá því sr. Bjarni var vígður til dómkirkjunnar í Reykjavík.

Um helgina var opnuviðtal við Sif Friðleifsdóttur umhverfisráðherra í Degi-Tímanum. Fyrirsögn viðtalsins er tilvitnun í Sif og þar segir: „Fylgjum trú okkar, stefnu og sannfæringu“. Sif er í Framsóknarflokknum en fyrir nokkru birtist trú, stefna og sannfæring framsóknarmanna í slagorði flokksins „XB ekki EB“.