Gagnsemi ríkisreksturs á útvarpi hefur verið rædd fram og til baka undanfarin ár og ekki síst að undanförnu vegna snautlegrar frammistöðu Ríkisútvarpsins þegar jarðskjálfti skaut mönnum skelk í bringu á þjóðhátíðardaginn. Flestir hafa nú áttað sig á því að eina öryggið sem Ríkisútvarpið veitir er falskt öryggi. Stjórnendur Ríkisútvarpsins reyna þó enn að hanga í þessu síðasta hálmstrái þeirra sem vilja ríkisútvarp og auglýstu grimmt í vikunni að almenningur geti sjálfum sér um kennt að eiga ekki langbylgjuviðtæki!
En það var ekki aðeins hljóðvarp Ríkisútvarpsins sem brást heldur einnig sjónvarpið. Sjónvarpssendingar Ríkisútvarpsins féllu þó ekki niður eins og hljóðvarpssendingarnar heldur brugðust starfsmenn þess einkennilega við þar sem þeir sátu í skjálftanum og lýstu knattspyrnuleik. Í kjölfarið hafa heyrst kröfur um það að Ríkisútvarpið fái sérstaka rás til sjónvarpsendinga á íþróttaleikjum. Þessar raddir berast ekki síst úr Ríkisútvarpinu sjálfu. En um leið og því er haldið fram að vandamál Ríkisútvarpsins yrðu leyst með sérstakri rás fyrir íþróttir eru menn að segja að íþróttir séu eina efnið sem fréttir af náttúruhamförum verða að víkja fyrir. Hvað með beinar útsendingar af svonefndum menningarviðburðum, umræðuþáttum um stjórnmál eða bara síðasta þættinum í Taggart syrpunni sem kunningjakona Víkverja horfir á með áfergju? Eru þetta allt ómerkilegri liðir en íþróttir að mati starfsmanna Ríkisútvarpsins og yrðu þar með látnir víkja fyrir fréttum af náttúruhamförum? Ætli dómgreind starfsmanna RÚV myndi batna svo mjög við það eitt að stofnunun fengi að sjónvarpa íþróttum á annarri rás?
En Ríkisútvarpið hefur raunar yfir að ráða annarri VHF rás sem það notar ekki. Það er furðulegt að Ríkisútvarpinu skuli líðast að hanga eins og hundur á roði á þessari rás þegar hér starfa sjóvarpsstöðvar sem gætu nýtt rásina til að ná til allra landsmanna. Skjár 1 sendir til dæmis út ókeypis sjónvarpsdagskrá sem virðist njóta mikilla vinsælda meðal þeirra sem ná henni á annað borð. Ef að hin svonefndu Neytendasamtök væru einhvers virði myndu þau ekki linna látum þar til þessi rás væri tekin af Ríkisútvarpinu og fengin þeim sem hafa not fyrir hana. Félögin sem kenna sig við verkafólkið og launþegana hafa heldur ekki látið í sér heyra um þetta mál, ekki frekar en um skyldukaup almennings á dagskrá Ríkisútvarpsins. En ef til vill er ekki við miklu að búast af þessum samtökum sem, eins og Ríkisútvarpið, eru rekin fyrir nauðungargjöld.