Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur auglýst embætti forstjóra Persónuverndar, arftaka Tölvunefndar, laust til umsóknar. Í auglýsingu frá ráðuneytinu segir m.a.: „Umsóknir þar sem umsækjandi óskar nafnleyndar verða ekki teknar gildar.“ Nei, auðvitað er ekki hægt að fara fram á nafnleynd við Persónuvernd.
500 milljónir króna eru víst lítið fé og Alþingi verður ekki lengi að afgreiða tillögu, sem lögð verður fram á fundi þess í tilefni eitt þúsund ára kristni, um að þjóðin gefi sjálfri sér þá upphæð. Vitaskuld mátti ekki minna vera, enda mátti ekki minna vera en gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín þegar haldið var upp á 50 ára lýðveldi. Þessi nýja gjöf sem þjóðinni verður gert að gefa sér mun víst eiga að fara í fornleifarannsóknir – eða bara eitthvað annað sem mönnum dettur í hug. Það er ekki aðalatriði, mikilvægast er að halda áfram að ausa úr ríkissjóði.
Þegar talað er um sóun er ekki úr vegi að minnast á íslenska skálann í Hannover, en hér var í fyrradag bent á þá staðreynd að í Hannover væri verið að eyða 280 milljónum í verkefni sem skilar vægast sagt óljósum ávinningi. Nú er komið í ljós að þessi sýning er sama marki brennd og hið „metnaðarfulla“ mannvirki Breta, Millenium Dome. Miðað við áætlanir nennir varla nokkur maður að heimsækja þau merku mannvirki, íslenska skálann og Millenium Dome. Að hvoru tveggja stóðu menn sem hafa stórar hugmyndir um hvernig eyða megi annarra manna fé og hvort tveggja er dæmt til að mislukkast.
Heimssýningin í Hannover hefur ekki hlotið nema lítið brot þeirra gesta sem gert var ráð fyrir, líklega um eða innan við 10% af áætluðum fjölda. Formaður félags skattgreiðenda í Þýskalandi, Karl Heinz Däke, er vægast sagt ósáttur við niðurstöðuna fyrir þýska skattgreiðendur og í samtali við þýska vikuritið Der Spiegel kveðst hann óttast að stór hluti kostnaðarins muni falla á þá. Hann bendir á að einungis um 16.000 manns hafi heimsótt sýninguna síðastliðinn sunnudag, en áætlanir gerðu ráð fyrir 260.000 manns á dag. Í þessu sambandi er athyglisvert að sjá viðbrögð íslenska skálavarðarins í Hannover. Ekki er dregið af honum vegna tíðindanna um dræma aðsókn. Þvert á móti talar hann um að fjölga þurfi starfsmönnum skálans, því þeir sem fyrir eru hafi ekki undan!