Þriðjudagur 6. júní 2000

158. tbl. 4. árg.

Ein lífseigasta skröksaga umhverfisverndarsinna er sú að notkun á pappír valdi eyðingu regnskóganna. Pappír er þó aðallega framleiddur úr nytjaskógum, ekki síst í Skandínavíu og Norður-Ameríku þar sem fleiri trjám er plantað en höggvin eru. Á þetta er bent í nýjum bæklingi frá Prentsmiðjunni Odda hf. sem borinn er í hús þessa dagana og ber yfirskriftina Notaðu Odda pappír og stækkaðu nytjaskóga Evrópu. Þar segir m.a.: „Allur pappír sem notaður er í Prentsmiðjunni Odda er unninn úr nytjaskógum og á það jafnt við um skrifstofu- og prentpappírinn. Stærsti hluti pappírsins í Odda kemur frá Finnlandi þar sem skógar eru í stöðugum vexti. Sem dæmi má nefna að í skógum UPM sem framleiðir pappírinn fyrir Odda er árlegur vöxtur 3,5 milljónir rúmmetra, árleg grisjun er hins vegar ekki nema 2,1 milljón rúmmetra.“ Það má því færa rök fyrir því að öflugur pappírsiðnaður stækki skógana.

Önnur bábilja sem umhverfisverndarsinnar hafa haldið að fólki, og er oftar enn ekki helsti liðurinn í „heildrænni stefnumörkun í umhverfismálum“ hjá ríkisstofnunum í tilvistarkreppu, er meint umhverfisvæn notkun á endurunnum pappír. Í bæklingnum frá Odda segir um endurunninn pappír: „Endurunninn pappír hefur ekki náð að skapa sér sess á skrifstofu og prentmarkaði. Ástæða þess er sú að hann er ekki jafn umhverfisvænn og menn halda, og er á svipuðu verði. Við vinnslu á endurunnum pappír þarf að bæta í hann kemískum efnum til þess að halda pappamassanum saman. Þessi „bætiefni“ sem eru einskonar lím, samlagast náttúrunni illa. Þannig að þegar kemur að því að farga endurunna pappírnum þá er hann orðinn meiri mengunarvaldur en ef honum hefði verið fargað strax.“