Mánudagur 5. júní 2000

157. tbl. 4. árg.

Það fer vel á því að sá fréttamaður sem undantekningarlaust dregur upp jákvæða mynd af viðmælendum sínum flytji fréttir í Ríkissjónvarpinu af heimssýningunni í Hannover. Menn þurfa að vera í æfingu til að flytja gagnrýnislausar fréttir af þessari brennslu utanríkisráðuneytisins á fé almennings úti í Hannover. „Það er ljóst að íslenski skálinn hefur hlotið mikla athygli…“, hljómar raunar í hvaða íslenskum fréttatíma og hvaða dagblaði sem er. Hverjum tækist annars ekki að vekja athygli í Hannover fyrir 280 milljónir króna? En það mun vera upphæð reikningsins fyrir „íslenska skálanum“ sem íslenskir skattgreiðendur greiða að stórum hluta. Sléttur þúsund kall á mann.

En fleiri fréttir og ánægjulegri fréttir berast frá Þýskalandi þessa dagana. Í Financial Times var sagt frá því í síðustu viku að græningjar þ.e. Græni flokkurinn sem á aðild að stjórn Gerhards Schröders væri að endurskoða andstöðu sína við einkabílinn. Flokkurinn framdi því sem næst pólitískt harakiri í síðustu kosningum með því að leggja til þreföldun á bensínverði með himinhárri skattlagningu. Forystumenn í flokknum hafa ekki áhuga á að endurtaka þá tilraun. Í nýju stefnumótunarplaggi frá flokknum segir m.a.: „Einkabíllinn er oftar en ekki stöðutákn. Unglingar líta á bílprófið sem aðgöngumiða að heimi hinna fullorðnu. Konum þykir bíllinn ómissandi þar sem hann veitir þeim öryggi á götum úti þegar skyggja tekur og hann gerir þeim kleift að sinna bæði móðurhlutverkinu og starfi utan heimilis.“ Og áfram segir: „Fyrir aldraða og fatlaða er bíllinn tákn um möguleika á því að ferðast án aðstoðar… Við verðum að viðurkenna þörf einstaklinganna til að komast um óháðir öðrum.“

Það er ef til vill dæmigert fyrir íslenska stjórnmálamenn að nú þegar jafnvel þýskir græningjar eru að draga úr hatri sínu á einkabílnum fer af stað linnulaus áróður gegn bílnum hér á landi. Borgarstjórinn í Reykjavík sem innheimtir hærri skatta af borgarbúum en dæmi eru um áður tekur nú þátt í þessum haturskór í stað þess að viðurkenna að borgaryfirvöldum hefur mistekist að halda götunum í borginni við og bæta ráð sitt. Það er ekki að undra þótt ryk komi af götum sem eru að molna í sundur. En þessi slaka frammistaða borgarstjórnar kemur þó ekki á óvart. Hvernær hafa opinberir aðilar veitt þá þjónustu sem fólk sækist eftir?