Laugardagur 3. júní 2000

155. tbl. 4. árg.

Í gær voru fluttar fréttir af því að Landvirkjun ætlar að styrkja starf Landgræðslu ríkisins. Væntanlega gerir Landsvirkjun þetta til að bæta ímynd sína gagnvart þeim sem skipað hafa sjálfa sig vini umhverfisins og öðrum slíkum. Í vikunni var einnig frétt á fréttavef BBC þar sem sagði m.a.: „Vatnsaflsvirkjanir hafa verið taldar síst mengandi kosturinn til að framleiða orku. Þær geta hins vegar mengað meira en kolaver. Ástæðan fyrir þessu er sú að uppistöðulón safna í sig lífrænum leyfum sem gefa frá sér mikið af gróðurhúsalofttegundum við rotnun. Hversu mikill þessi útblástur gróðurhúsalofttegunda er getur verið erfitt að meta og mjög háð aðstæðum á hverjum stað.“ Í fréttinni, sem byggð er á rannsókn sem birtist nýlega í tímaritinu New Scientist, segir að ástæða þess að lón valdi meiri útblæstri en kom úr á sem rann þar hindrunarlaust áður sé að í lóninu myndist metangas en koltvísýringur í ánni. Metan er margfalt öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur.

Ef að eitthvað er til í þessum kenningum, sem virðast háðar mikilli óvissu eins og svo margar aðrar kenningar um gróðurhúsaáhrifin, þá má ljóst vera að því meira starf sem Landgræðsla ríkisins vinnur við ræktun á svæðum sem liggja að uppistöðulónum Landsvirkjunar þeim mun meira af gróðurleyfum mun safnast í lónin og þar af leiðir mun myndast meira af metani.

Í framangreindri rannsókn er tekið dæmi af Balbina virkjuninni í Brasilíu sem framleiðir 112MW en gert er ráð fyrir að hún gefi einnig frá sér ígildi 3 milljóna tonna af koltvísýringi á ári fyrstu 20 árin. Jafn afkastamikið kolaorkuver gefur hins vegar frá sér 0,35 milljónir tonna á ári.