Föstudagur 2. júní 2000

154. tbl. 4. árg.

Undanfarin ár hefur sprottið upp jafnréttisiðnaður hér á landi sem að mestu leyti er ríkisrekinn en jafnréttisfulltrúar hafa sprottið upp svo víða hjá hinu opinbera að ætla mætti að hér sé hallað all svakalega á annað kynið. Meðal þess sem jafnréttisfulltrúar þessara ríkisstofnana hafa beitt sér fyrir eru ný lög um fæðingar- og foreldraorlof sem samþykkt voru á Alþingi á dögunum. Þessi lög voru kynnt sem velferðarmál fyrir börn og foreldra en megin tilgangur þeirra var ímyndaður ávinningur í jafnréttismálum kynjanna. Það er því ekki laust við að það komi vel á vondan nú þegar jafnréttisráð, karlanefnd jafnréttisráðs og skrifstofa jafnréttismála verða notuð til að ná fram ímynduðum ávinningi í byggðamálum og flutt á Sauðárkrók.

Fjórir Egyptar og ein finnsk stúlka voru handtekin á Akureyri fyrir skömmu fyrir að selja málverk. Óseldu málverkin voru gerð upptæk, rúmlega tvö hundruð talsins, og var götuvirði þeirra u.þ.b. 2 milljónir (málverkaskammturinn var seldur á bilinu 7-12 þúsund krónur). Málverkin eiga víst uppruna sinn í Hong Kong, þar sem skammturinn kostar aðeins 100 til 200 krónur, líkt og fimmmenningarnir viðurkenndu við yfirheyrslur hjá hinni öflugu rannsóknarlögreglu á Akureyri sem einbeitir sér að mikilvægustu málunum Ekki hefur komið fram hvað hvert málverk vegur í grömmum, en ljóst þykir að þessi innflutningur í heild sinni mælist í kílóavís. Lögreglufulltrúi nokkur í rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri lét svo hafa það eftir sér í fjölmiðlum að fólk, sem hafi keypt myndirnar, sitji því miður uppi með skaðann en þó sé ekki hægt að segja annað en að myndirnar séu fallegar.

Viðhorf lögreglunnar og fréttaflutningur af þessu „máli“ vekur furðu. Hver er glæpurinn? Ef að tollalög hafa verið brotin þá trúir lögreglan því ekki að hver mynd hafi kostað 100-200 krónur í Hong Kong enda má hver ferðamaður koma með nokkur hundruð slíkar myndir á því verði með sér inn í landið. En lögreglan hélt því einnig fram að álagningin hafi verið óhófleg. Lögreglan virðist því ekki rengja verðið í Hong Kong. „Glæpurinn“ virðist því vera að álagning er mikil. En er það glæpur? Nei, vitaskuld ekki. Þó ætla mætti af fréttaflutningi – bæði af þessari verslun og annarri – að hér á landi sé einhver ríkisálagning sem allir verði að notast við þá er það ekki svo. Egyptum, Finnum og Íslendingum er heimilt að selja á því verði sem þeir kjósa og kaupendum er sömuleiðis heimilt að kaupa eða kaupa ekki eftir því sem þeim hentar. Ef verið væri að plata vörum inn á fólk gegndi allt öðru máli, en ekkert hefur komið fram um að svo hafi verið varðandi málverkasöluna. Stundum gera kaupmenn einfaldlega góð kaup og hagnast vel á endursölu, en stundum sitja þeir líka uppi með vörur sem þeir losna ekki við nema selja þær undir innkaupsverði. Fátítt er að fréttamenn geri veður út af því.