Leiðarahöfundar DV tala út og suður um fíkniefnamál þessa dagana. Á laugardaginn veltu þeir upp kostum þess að leyfa dópið enda væri handtaka á tugum manna í stærsta fíkniefnamáli Íslandssögunnar eins og að skvetta vatni á gæs þar sem verð á fíkniefnum hefði fljótalega lækkað á nýjan leik vegna mikils framboðs. Í gær kvað hins vegar við annan tón í leiðara blaðsins og þar sagði: „Hvergi má gefa eftir og raunar þarf að taka fastar á til þess að framhald verði á ágætum árangri í baráttu við sölumenn dauðans. Lögregla og tollgæsla hafa unnið markvisst að því að góma eitursmyglara, hvort sem þeir koma sjálfir með efnin, nýta svokölluð burðardýr eða senda varninginn til landsins með öðrum hætti. En ekki er síður mikilsvert að reyna að komast að sölu- og dreifingaraðilum í gegnum fíkniefnaneytendur sem kaupa efnin á markaði. Smæð samfélagsins ætti að auðvelda það starf.“
Þetta sjónarmið um smæð samfélagsins heyrist æði oft. En hvernig gengur að hafa hemil á fíkniefnaneyslu í „smáum samfélögum“ almennt? Fangelsi eru smá samfélög og þar vaka lögreglumenn yfir hverjum einasta manni dag og nótt, einkalíf er í lágmarki, lítil samskipti við umheiminn og „landamæragæsla“ er sú öflugasta sem þekkist. Engu að síður er fíkniefnaneysla í fangelsum mikil, ekki aðeins hér á landi heldur í fangelsum um allan heim. Fleiri dæmi um smá samfélög mætti nefna. Til dæmis lögreglustöð þar sem allir eru beinlínis í vinnu við að koma í veg fyrir að fíkniefni komist í umferð. Þaðan hvarf dóp úr geymslu.
En þessi umræða í leiðurum DV er af hinu góða. Hún sýnir hve veikur málstaður þeirra er sem vilja halda í óbreytt ástand í þessum efnum.