Þriðjudagur 30. maí 2000

151. tbl. 4. árg.

Í leiðara DV á laugardaginn var rætt um kosti þess að leyfa sölu annarra fíkniefna en áfengis og prozaks og losna þar með við neikvæðar afleiðingar fíkniefnabannsins. Leiðarinn er út af fyrir sig tíðindi í umræðum um þessi mál þar það hefur ekki þótt samrýmast pólitískum rétttrúnaði að viðra slík sjónarmið. Það þarf raunar nokkuð áræði til að halda þeim fram þar sem viðbrögðin eru jafnan afar ofsafengin. Í leiðaranum segir: „Mafíur komust til áhrifa í Bandaríkjunum á bannárunum fyrir stríð. Gróðann notuðu þær meðal annars til að grafa undan þjóðskipulaginu og setja sig í stað ríkisvaldsins. Mörgun áratugum eftir afnám fíkniefnabannsins lifa mafíurnar góðu lífi á verzlun fíkniefna. Það sem þá gilti um vínbann, gildir núna um fíkniefnabann, ekki aðeins í Bandaríkjunum, heldur um allan hinn vestræna heim. Á svarta markaðinum græðast miklir fjármunir, sem meðal annars eru notaðir til að hefja mafíur nútímans yfir lög og rétt landsins.  Andstæðingar þjóðfélagsins eiga auðveldari leik nú en þá, því fíkniefni eru minni að fyrirferð og auðveldari í flutningi en áfengi. Enda ná yfirvöld aðeins tangarhaldi á litlu broti ólöglegra fíkniefna og allur þorri glæpamanna á því sviði gengur laus. Þeir, sem nú eru leiddir fyrir rétt í stærsta fíkniefnamáli Íslandssögunnar, bera aðeins ábyrgð á litlum hluta fíkniefnasölu í landinu. Ekki eru nein merki þess, að fíkniefnum hafi fækkað í umferð. Þvert á móti hefur offramboð lækkað verð þeirra.“

Í leiðaranum í DV segir einnig: „Þau fíkniefni, sem hafa verið lögleidd, skaða fíkla og valda miklum kostnaði, en þau grafa ekki undan sjálfu þjóðskipulaginu, af því að það myndast ekki neinar mafíur í kringum þau. Áfengi og prozak grafa ekki undan lögum og rétti á sama hátt og hass og maríjúana.“ Og áfram segir: „Um nokkurt skeið hafa lærðir menn leitt þung rök að því, að afnema beri bann við sölu fíkniefna og flytja söluna inn í gegnsætt viðskiptakerfi uppi á borði. Tímaritið Economist hefur hvað eftir annað gengið fram fyrir skjöldu í baráttunni fyrir því, að fíkniefni verði leyfð. Markmiðið er að ná tökum á mafíum heimsins og hindra þær í að grafa undan lögum og rétti með mútum og ógnunum, sem hafa áhrif á lögreglumenn, saksóknara, dómara, fréttamenn, stjórnmálamenn og aðra þá sem koma einna mest að rekstri þjóðskipulagsins.“ Að lokum segir svo í leiðaranum: „Hingað til hafa slíkar hugleiðingar verið gargaðar niður og svo verður enn að þessu sinni. Hitt má ljóst vera, að dag hvern er svarti markaðurinn að grafa undan þjóðskipulaginu jafnt á Íslandi sem annars staðar á Vesturlöndum og sífellt sígur á ógæfuhliðina. Ríkisverzlun fíkniefna kemur fyrr eða síðar. Því fyrr sem þjóðfélagið tekur lifibrauðið af mafíunum, þeim mun traustari verða hornsteinar laga og réttar í landinu.“

Við þetta má bæta að með því að færa viðskipti með þau fíkniefni sem eru bönnuð í dag í apótek ættu hinir ógæfusömu fíklar að geta treyst því að um ómenguð efni sé að ræða, skammtar hæfilegir og nálar og önnur áhöld hrein. Í dag hafa fíklarnir litla hugmynd um gæði eða styrk þeirra efna sem þeir kaupa á götuhornum og þurfa að neyta efnanna með óhreinum áhöldum á almenningssalernum. Þeir sem segjast bera hag fíklanna fyrir brjósti ættu að hafa þetta í huga næst þegar þeir gera hróp að þeim sem vilja leyfa dópið.