Í gær var afgreitt sem lög frá Alþingi mál nr. 623 – Geir H. Haarde gegn almenningi – frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Með samþykkt frumvarpsins staðfestu þingmenn að þingsályktunartillaga sem þeir samþykktu einnig í gær um að kanna læsi fullorðinna á fullan rétt á sér. Eins og menn hafa tekið eftir og gagnrýnt, var gangur málsins í gegnum sali Alþingis ótrúlega hraður. Heitustu stuðningsmenn frumvarpsins lögðu gífurlega áherslu á að það fengi sem minnsta umræðu á þinginu, enda hafa þeir vitað sem var, að öll skoðun á frumvarpinu var til þess fallin að draga mjög úr stuðningi við það.
Með skipulögðum hætti var frumvarpið keyrt í gegnum þingið. Þvert á allar venjulegar aðferðir var þess gætt að leita engrar umsagnar hagsmunaaðila, fulltrúa atvinnulífsins eða annarra, sem þó er jafnan gert, jafnvel um veigalítil smámál. Ekki síður var þess gætt að gera allt til þess að sannfæra menn strax í upphafi um að allt væri frábært við frumvarpið og þar þyrfti engu að breyta og ekkert að ræða.
Ein sérkennilegasta tilraunin til að leiða menn afvega er þó gerð á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins. Á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins er því blákalt haldið fram að frumvarpið um fæðingarorlof hafi verið í samræmi við ályktanir flokksins. Það þarf góðan vilja – barnaskapur getur líka hjálpað – til að telja að um mistök sé að ræða hjá þeim starfsmanni flokksins sem þetta hefur skrifað. Því miður er þó sennilegra að um vísvitandi blekkingu sé að ræða. – En auðvitað er hugsanlegt að þetta hafi farið inn fyrir mistök. Þá munu starfsmenn flokksins væntanlega bæta fyrir þau með því að setja í staðinn á síðuna frásögn af því sem raunverulega gerðist á síðasta landsfundi flokksins
Á landsfundinum var nefnilega hart deilt um fæðingarorlofsmál. Niðurstaðan varð sú, að landsfundur Sjálfstæðisflokksins, æðsta vald í málefnum flokksins, leyfði sér að hafna sérstaklega þeirri útfærslu að hluti fæðingarorlofs yrði bundinn öðru hvoru foreldrinu. Landsfundarfulltrúar höfnuðu með afgerandi hætti þessari útfærslu sem síðar var troðið inn í margumrætt frumvarp og það síðan keyrt í gegnum Alþingi á ofsahraða.
Allt frá landsfundinum hefur örlítill hópur fólks unnið að því að hafa samþykkt hans að engu. Það hefur nú tekist með eftirminnilegum hætti.