Þriðjudagur 2. maí 2000

123. tbl. 4. árg.

Grétar Þorsteinsson forseti ASÍ hvatti stjórnvöld til þess í 1. maí ávarpi sínu að koma böndum á þensluna og vissulega er það rétt hjá Grétari að beina þessum orðum til stjórnenda fjármála ríkisins. Ríkisútgjöld hafa vaxið um 5% á hverju ári undanfarin fjögur ár. Þetta er mikill vöxtur á sama tíma og þörfin fyrir félagslega aðstoð ríkisins er í lágmarki vegna nægrar atvinnu og hækkandi ráðstöfunartekna. Þrátt fyrir þessa eyðslustefnu og augljósar afleiðingar hennar í aukinni verðbólgu kynnir fjármálaráðherra nú tillögur um að taka upp einstæðar félagslegar bætur til hátekjufólks fyrir barneignir. Þetta verða engir venjulegir velferðartékkar sem Geir H. Haarde mun skrifa upp á samkvæmt nýju frumvarpi um fæðingaroflof. Þetta verða einfaldlega hæstu félagslegu bætur Íslandssögunnar – og þær munu ganga til þeirra sem hafa hæstu tekjurnar! Dæmi? Einstaklingur sem hefur 2 milljónir króna í mánaðarlaun mun fá velferðartékka upp á 9,6 milljónir króna fyrir það að taka 6 mánaða fæðingarorlof. Það er því ekki að undra að lauma á þessu frumvarpi á mettíma í gegnum þingið nú við þingslit. Og stjórnarandstaðan, Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson, er að ærast af fögnuði yfir þessari gjöf til hátekjufólks. Þetta nýja bótakerfi mun ekki draga úr gildi þess sem Andrés Magnússon benti á í umræðuþættinum Silfri Egils á Skjá 1 í fyrradag: „Velferðarkerfið er ekki öryggisnet, heldur hengirúm fyrir alltof marga.“

Svanur Kristjánsson prófessor lýsti óvænt yfir eftirfarandi í sama sjónvarpsþætti á sunnudaginn: „Ég er háskólaborgari, mér ber að segja satt.“ Þetta gefur okkur hinum aukið svigrúm.