Mánudagur 1. maí 2000

122. tbl. 4. árg.

Í Viðhorfspistli í Morgunblaðinu á laugardaginn vitnar Hanna Katrín Friðriksen til bókarinnar Natural Capitalism og segir: „Iðnbyltingin mikla hófst í Englandi upp úr miðri 18. öld í kjölfar nýrra framleiðsluhátta. Á þeim tíma töldu menn náttúruauðlindir óþrjótandi og vandinn lá frekar í skorti á vinnuafli. Þegar sá vandi leystist var grunnurinn lagður að iðnbyltingunni. Núna horfir málið öðruvísi við. Nú er ekki hægt að kvarta undan skorti á hæfu vinnuafli og það ætti flestum að vera orðið ljóst að náttúruauðlindir jarðar eru langt frá því að vera óþrjótandi.“ Hanna Katrín nefnir þó ekki dæmi um náttúruauðlind sem hefur þrotið þrátt fyrir að þær séu svo „langt frá því að vera óþrjótandi“. Hún nefnir ekki heldur dæmi um land þar sem svo mikið framboð hefur verið af hæfu vinnuafli að verðið á því, þ.e. laun, hafi lækkað. Þetta kemur ekki á óvart þar sem verð á flestum afurðum náttúruauðlinda (málmar, jarðefnaeldsneyti, hveiti, hrísgrjón o.s.frv.) hefur lækkað linnulítið frá upphafi iðnvæðingar ef miðað er við fast verðlag, ekki síst á síðustu áratugum. Þessar afurðir hafa svo lækkað enn meira ef verð þeirra er miðað við tímakaup. Þetta bendir miklu fremur til þess að skortur sé á vinnuafli en náttúruafurðum.

Það er raunar einnig rangt hjá Hönnu Kartínu að „menn“ hafi talið náttúruauðlindir óþrjótandi á miðri 18. öld. Frægasti spámaður offjölgunar og auðlindaþurrðar Thomas R. Malthus fæddist einmitt um miðja 18. öldina og gaf út sitt frægast rit  An Essay on the Principle of Population við lok hennar. Þetta viðhorf Malthus hafði verið viðtekið í Englandi frá því á 15. öld og voru Englendingar sér á báti hvað þetta varðar að því er segir í History of Population Theories eftir Joseph J. Spengler. Ráðamenn annarra landa vildu öra fólksfjölgun til að eiga mannafla í heri og breiðan skattstofn. Síðar töldu Marxistar einnig (og telja enn þótt þeir kalli sig græna í dag) að í kapítalísku þjóðfélagi myndi fólksfjöldun leiða til hungursneyðar og hörmunga. Því miður falla hinir grænu Marxistar og aðrir sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar þráfaldlega í þá gryfju að líta á manninn sem sníkjudýr á líkama jarðarinnar. Þeir gleyma því að hver nýr einstaklingur bætir við þekkingu og sérstökum hæfileikum. Þessi þekking er nýtt til að hagnýta auðlindir á nýjan hátt eins og olía leysti viðinn af hólmi í ofnum manna og lýsi í lömpum, ljósleiðari úr sandi tengir menn saman í stað koparþráðar og um hann fara bréf sem áður fóru á pappír með skipi milli manna, áburður, erfðabætur og sérhæfð tæki margfalda þá uppskeru sem við fáum af sama landi og léttmálmar og plast koma í stað stáls og timburs í farartækjum og byggingum. Hinir sérstöku hæfileikar hvers og eins auka möguleikana á verkaskiptingu, ekki síst í þéttbýli, og þar með á hagkvæmri nýtingu auðlinda. Enda eru flest þéttbýlustu svæði jarðarinnar (Danmörk, Sviss, Hong Kong) jafnframt þau svæði þar sem fólk hefur það best.

Hanna Katrín vitnar svo í Karl Rabago stjórnanda Rocky Mountain Institute sem hún segir að haldi því fram að „fylgifiskur hinnar blóðugu samkeppni sem ríkti á bandaríska hlutabréfamarkaðinum væri óeðlileg áhersla á skammtímaárangur fyrirtækjanna.“ Þessi skoðun hefur farið framhjá þeim fjárfestum sem að undanförnu hafa fjárfest grimmt í hátæknifyrirtækjum í Bandaríkjunum sem flest eru rekin með miklu tapi í þeirri von að möguleikar þeirra til lengri tíma séu góðir. Nefna má mörg dæmi um fyrirtæki í net- og líftæknibransanum þessu til staðfestingar. Fjárfesting í þessum fyrirtækjum er byggð á langtímasjónarmiðum. Rabago telur einnig, að því að Hanna Katrín segir, að evrópskir stjórnmálamenn muni innleiða langtímahugsun í kapítalismann! Stjórnmálamenn? Ef til vill ætti Hanna Katrín að nefna dæmi um stjórnmálamann sem hugsar til lengri tíma en til næstu kosninga. Eitt dæmi væri vel þegið.