Í aprílhefti tímaritsins Wired birtist grein undir fyrirsögninni „Why the future doesnt need us“. Höfundur greinarinnar, Bill Joy, er einn af stofnendum Sun Microsystems, einn aðalhönnuða Berkeley Unix, Java og Jini. Efni greinarinnar er þó hvorki Unix né Java heldur vægast sagt myrk framtíð mannkyns í heimi óheftra uppgötvana og tækniþróunar. Helstu ógnirnar felast í vélmennum með greind, nanótækni og erfðabreytingum sem hann viðurkennir að hafi marga góða kosti að bjóða en að hans mati eru þessar greinar einfaldlega hættulegri en svo að frekari þróun innan þeirra verði réttlætt.
Í upphafi greinar sinnar setur Joy fram þá kenningu að vélmenni með einhverskonar ofurgreind geti, með tímanum, komið í stað mannfólksins. Þetta segir Joy að geti gerst með þrennum hætti: Í fyrsta lagi þannig að vélmennin verði svo fullkomin og líf okkar svo háð þeim að við deyjum úr leiðindum, í öðru lagi þannig að vélmennin sigri okkur í samkeppni um landsins gæði og að mennirnir hafi ekki efni á nægri orku, fæðu o.s.frv. til að lifa af, í þriðja lagi þannig að við mennirnir munum með tímanum renna saman við vélmennin og þannig breyta eðli mannkyns. Auk þessa telur Joy verulega hættu stafa af þróun erfðabreyttra matvæla.
Áhyggjur Joy eru að nokkru leyti skiljanlegar og sumar næstum skynsamlegar. Tækninýjungar má vissulega nýta, hvort sem er, til góðs eða ills. En áhyggjur Joy eru þó ekki síst af stjórnleysi þróunarinnar sem hann telur vera hættulegt í sjálfu sér öfugt við t.d. þróun kjarnorkusprengjunnar sem nokkuð ótvírætt laut einu yfirvaldi. Reyndar hefur Joy sjálfur líkt grein sinni við bréfið sem Albert Einstein reit Roosevelt forseta Bandaríkjanna árið 1939 þar sem hann varaði við afleiðingum kjarnorkusprengjunnar. Einstein ráðlagði þó hvorki Roosevelt að stöðva þróun kjarnorkusprengjunnar né að hætta með öllu rannsóknum í eðlisfræði.
Það er einkenni á áhyggjum Joy að þær beinast að óreiðu óhefts sköpunarfrelsis einstaklinganna og að því að sköpunargleði þeirra sé helst knúin áfram af efnahagslegum hvötum. Hann vill heldur að mannkyn treysti á Dalai Lama og Sameinuðu þjóðirnar en stjórn-, skipulags- og bremsulausa einstaklinga á frjálsum markaði, svo notað sé orðalag hans.
En þó áhyggjur Joy kunni að vera skiljanlegar og sumar hugsanlega skynsamlegar þá eru tillögur hans á mörkum hins skiljanlega, margar handan þeirra og allar lausar við skynsemi. Samkvæmt framtíðarsýn Joy þá verður hagnýting líf-og nanótækni tuttugustu og fyrstu aldar ekki aðeins á færi stjórnvalda í efnuðum ríkjum heldur næstum allra, hún verður ekki nærri eins kostnaðarsöm og miklu dreifðari en t.d. sú tækni og þekking sem þurfti til þróunar kjarnorkusprengjunnar á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. En samt sem áður leggur hann til að þróun og hagnýting þessarar þekkingar og tækni sæti jafn ströngu eftirliti og meðferð kjarnorkuvopna. Burtséð frá því að Joy virðist ekki gera sér grein fyrir hversu stór jörðin er né hversu margir íbúar hennar eru þá virðist hann hafa óbilandi og gersamlega órökstudda trú á góðum tilgangi eftirlitsaðilanna auk þess sem hann virðist fullkomlega tilbúinn til að fórna öllu persónu- og viðskiptafrelsi fyrir ímyndað öryggi mannkyni til handa. Í stuttu máli vill hann fórna mönnunum fyrir kenningu sína um mannkynið og heldur því fram að þetta sé eini kosturinn í stöðunni.
Eitt af mörgum dæmum um skort Joy á skynsemi er þessi ótrúlega málsgrein sem finna má í grein hans: „Ef við mennirnir, sem tegund, gætum sammælst um hvað við viljum, hvert við stefnum og hversvegna, þá yrði framtíð okkar ekki eins hættuleg og þá gætum við skilið hvað við getum og ættum að gefa upp á bátinn.“ Bill Joy, sem alla sína starfsævi hefur lifað og hrærst í iðnaði sem frægur er fyrir ósamrýmanlega staðla, sífelldar nýjungar, ólíkar leiðir og mismunandi markmið ætlar semsagt mannkyni öllu, rúmlega sex milljörðum, að sammælast um vilja, stefnu og að komast að því hversvegna viljinn og stefnan er svona en ekki hinsegin.
Að lokum má benda lesendum á grein sem Virginia Postrel, ritstjóri Reason, skrifaði um grein Bill Joy en Virgina er einnig höfundur bókarinnar, The Future and Its Enemies: The Growing Conflict Over Creativity, Enterprise and Progress.