Engum dylst að á þessu ári eru liðin þúsund ár frá því að kristni var lögtekin á Íslandi enda hafa talsmenn kirkjunnar og hins opinbera lagt mikið í kynningar á afmælinu. Stærsti atburðurinn vegna afmælisins er afmælisveislan sjálf og verður hún haldin á Þingvöllum. Tryggt verður að þeir sem af einhverjum ástæðum komast ekki í afmælið fá samt að taka þátt, því reikninginn greiða skattgreiðendur allir, en ekki aðeins þeir sem fara til Þingvalla að fagna.
Á Íslandi eru til fleiri trúfélög en hin kristnu og svo eru þeir meira að segja til sem engu segjast trúa, en allir munu þessir þó fá að taka þátt í kristnihátíðinni með fjárframlögum. Eitt af þeim trúfélögum sem ekki tilheyrir hinum kristnu félögum er ásatrúarfélagið. Nú vill þannig til að það félag hefur á sumrin haldið hátíð á Þingvöllum og hyggst einnig gera það nú í sumar. Mun sú hátíð verða haldin nokkrum dögum á undan kristnihátíðinni, en munurinn er sá að sögn allsherjargoðans, að hinir heiðnu verða að greiða allan kostnað sjálfir. Þetta eru þeir ósáttir við og telja að á þeim sé brotið með því að ríkið greiði hátíðir eins trúfélags en ekki annarra.
Nú er það vitaskuld svo að flestir Íslendingar eru í þjóðkirkjunni eða öðrum kristnum söfnuðum, en það þýðir þó ekki að þar með sé eðlilegt að ríkið greiði samkomur á vegum þessara safnaða. Vera kann að sumir vilji ekki greiða fyrir kristnihátíð þó þeir séu kristnir og svo þarf einnig að taka tillit til þess minnihluta sem ekki telur sig kristinnar trúar. Eðlilegast er í þessu sem öðru að menn greiði fyrir það sem þeir hafa áhuga á en láti aðra ekki greiða það fyrir sig.
Í Spegli ríkisútvarpsins í fyrrakvöld var rætt um hættulegar vörur á markaði og varnir gegn þeim. Rætt var við starfsmann markaðseftirlits löggildingarstofu sem telur, að vegna aukinna krafna neytenda um örugga vöru, þá beri brýna nauðsyn til að stjórnvöld móti heildstæða neytendastefnu. Hvað með heildstæða stefnu um hundalógík í útvarpi?