Mánudagur 24. apríl 2000

115. tbl. 4. árg.

Hjartalæknirinn
Hjartalæknirinn

Heilbrigðiskerfið er eitt af því sem helst er nefnt þegar spurt er að því hvaða verkefnum ríkið eigi að sinna og hvað eigi að vera undan skilið einkavæðingu. Þó er ekkert náttúrulögmál að ríkið reki heilbrigðisstofnanir á borð við sjúkrahús, hvað þá að ríkið geti rekið þær betur en einkaaðilar. Í British Medical Journal var nýlega sagt frá skýrslu frá ráðgjafarfyrirtækinu Arthur Andersen þar sem fram kemur að búist er við fækkun sjúkrahúsa og aukinni samkeppni þeirra á milli á næstu árum í Þýskalandi. Reiknað er með að ríkið muni draga sig út úr rekstrinum og að flest sjúkrahúsin verði sjálfseignarstofnanir eða verði í eigu einkaaðila. Gert er ráð fyrir að þessi þróun muni þýða að betur verði farið með fjármagn í heilbrigðiskerfinu og að í því verði teknar upp stjórnunaraðferðir sem líkjast meira því sem beitt er við rekstur annarra fyrirtækja.

Þessi spá um þróun í Þýskalandi er sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að í Þýskalandi er ríkari hefð fyrir því að ríkisvaldið sé umsvifamikið en t.d. í Bretlandi eða Bandaríkjunum. Þýskaland er að þessu leyti líkara Íslandi. Þetta leiðir hugann að því hvort menn sjá svipaða þróun fyrir sér hér á landi. Má búast við að sjúkrahúsum fækki og að ríkið dragi sig út úr rekstrinum? Væri t.d. hægt að fækka sjúkrahúsum á landsbyggðinni og draga úr starfsemi þeirra án þess að þjónustan versni? Í þessu sambandi má minna á að samgöngur fara sífellt batnandi og auðveldara er að flytja sjúklinga en áður var.

Á síðustu árum hefur skilningur aukist á því innan heilbrigðiskerfisins að nauðsynlegt sé að gæta betur að kostnaði við ákvarðanatöku. Til að auðvelda þetta er t.a.m. unnið að því að gera kostnaðargreiningu innan sjúkrahúsanna, þ.e. að áætla hvað þau verk kosta sem unnin eru. Þetta mun vafalítið skila hagræðingu í rekstri, en slíkt innra eftirlit með kostnaði kemur þó ekki í staðinn fyrir samkeppni og einkarekstur. Til að ná sem mestum árangri þarf ríkið að draga sig út úr rekstri fyrirtækja á heilbrigðissviði og leyfa þannig eðlilegt rekstrarumhverfi. Með þessu móti mætti veita jafn góða þjónustu fyrir mun lægra verð eða betri þjónustu fyrir sama verð, allt eftir því hvað notendur þjónustunnar kjósa.